Hulda Emilsdóttir (1930-)

Hulda Emilsdóttir

Hulda Emilsdóttir var kunn söngkona á sjötta áratug síðustu aldar og í upphafi þess sjöunda en hún söng fáein lög sem nutu vinsælda á sínum tíma, það var svo löngu síðar að gamlar upptökur með söng hennar voru gefnar út á plötum.

Hulda fæddist austur á Eskifirði árið 1930 og bjó þar fyrstu tíu ár ævi sinnar en fluttist þá með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur þar sem hún gekk í Verzlunarskóla Íslands, þar steig hún sín fyrstu skref á söngsviðinu þegar hún ásamt stöllum sínum stofnaði sönghópinn Bláklukkur sem starfaði í tvö til þrjú ár og kom víða fram bæði á skólaskemmtunum og almennum samkomum, m.a. annars í revíu- og kabarettsýningum en Hulda lék á gítar undir söng þeirra.

Að loknu verslunarskólaprófi bjó Hulda og starfaði í Noregi um tveggja ára skeið en kom svo heim og starfaði sem einkaritari Sveins Björnssonar forseta á árunum 1951 til 52 eða þar til hann lést. Eftir það fluttist hún til Danmerkur ásamt þáverandi eiginmanni sínum sem var þar í námi og þar söng hún eitthvað, m.a. í danska ríkisútvarpinu en þau bjuggu þar í tvö ár rétt eins og í Noregi en flutti þá heim á nýjan leik.

Árið 1955 má segja að eiginlegur söngferill Huldu hafi hafist þegar hún hóf að koma fram á kabarett- og revíusýningum þar sem hún bæði söng og dansaði – oft ásamt Sigríði Guðmundsdóttur sem hafði verið með henni í Bláklukkum en draumur Huldu var að gerast leikkona og nam hún við leiklistarskóla Ævars Kvaran. Það varð þó ekki úr að hún gerðist leikkona heldur einbeitti hún sér að söngnum næstu árin. Hún söng fyrst um sinn með hljómsveit Carls Billich á SKT dansleikjum í Gúttó við Tjörnina, og svo einnig með Hljómsveit Aage Lorange, Neo kvartettnum, G.R. kvartettnum og Hljómsveit Árna Ísleifssonar auk þess að syngja á fleiri revíusýningum og miðnæturtónleikum í Austurbæjarbíói á næstu árum. Þá söng hún einnig með Hljómsveit Magnúsar Péturssonar í útvarpinu, og í Þjóðleikhúskórnum.

Hulda Emilsdóttir

Sumarið 1960 hóf Hulda að syngja með Hljómsveit Guðmundar Finnbjörnssonar í Þórscafé og um það sama leyti söng hún inn á sína fyrstu plötu þegar hún söng ásamt Sigurði Ólafssyni lögin Halló og bergmál hins liðna sem nutu nokkurra vinsælda en Hulda varð einmitt þekkt fyrir fyrrnefnda lagið, hún söng einnig lagið Átthagatónar inn á plötu með Sigurði.

Með Guðmundi og hljómsveit hans söng Hulda næstu árin eða allt til haustsins 1962 þegar hún fluttist ásamt eiginmanni sínum til Bandaríkjanna, þar sem hún átti eftir að búa næstu áratugina, fyrst í Texas en síðar í Washington og Kaliforníu – hún söng heilmikið á Ameríku-árum sínum en mestmegnis þar sem hún lék sjálf undir á gítar, bæði í klúbbum og annars konar skemmtistöðum en einnig kom hún fram i sjónvarpi, hún söng um tíma m.a. með hljómsveit Dan Burke. Hulda söng jafnframt í óperukór og kirkjukór þegar hún var bjó í Forth Worth í Texas, þess má geta að hún gekk þar undir nafninu Hulda Petursson. Hulda bjó í Bandaríkjunum allt til ársins 2016 en þá flutti hún aftur heim til Íslands eftir að hafa búið erlendis í á sjötta áratug.

Á síðustu árum hafa komið út gamlar upptökur með söng Huldu, slíkar upptökur komu fyrst út í litlu upplagi á vegum Sigurjóns Samúelssonar árið 2000 undir titlinum Hulda at the summit: Hulda Emilsdóttir syngur og leikur á gítar, en þær upptökur munu hafa verið frá árinu 1968 úr Jones Studio-Houston – heimild hermir að útgáfan sé afrit af 33 snúninga plötu en ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um þá plötu, hvort um sé að ræða plötu sem kom út í Bandaríkjunum. Platan var endurútgefin árið 2023 og um svipað leyti kom einnig út þriggja laga smáskífan Hulda at Þórscafe 1960 en á þeirri skífu syngur hún við undirleik Hljómsveitar Guðmundar Finnbjörnssonar. Báðar skífurnar eru aðgengilegar á streymisveitum en hafa ekki komið út á efnislegu formi.

Efni á plötum