Hljómsveitin Rökkurtríóið eða Hulda Rós og rökkurtríóið starfaði á Höfn í Hornafirði um nokkurra ára skeið fyrr á þessari öld, og kom þá mestmegnis fram á tónlistarhátíðum fyrir austan.
Hulda Rós og rökkurtríóið var líkast til stofnuð síðla árs 2007 en kom fyrst fram á sjónarsviðið á blúshátíðinni Norðurljósablús á Höfn, sveitin lék fönskotinn djassblús og kom svo einnig fram á Humarhátið þeirra Hornfirðinga um sumarið auk þess að leika næstu árin á Norðurljósablúshátíðinni og Hammond hátíðinni á Djúpavogi.
Sveitin var alla tíð skipuð þeim feðginum, Huldu Rós Sigurðardóttur söngkonu og Sigurði Guðnasyni gítarleikara en auk þeirra voru í sveitinni Eymundur Ragnarsson trommuleikari og Bjartmar Ágústsson bassaleikari meðlimir sveitarinnar. Heiðar Sigurðsson píanó og orgelleikari lék einnig stundum með sveitinni sem og Svavar Sigurðsson sem leysti Heiðar af hólmi.
Rökkurtríóið starfaði til ársins 2010 að minnsta kosti.














































