
Human woman
Dúettinn Human woman starfaði um nokkurra ára skeið fyrr á þessari öld og var nokkuð virkur um tíma. Sveitin komst á útgáfusamning hjá þýsku plötuútgáfunni HFN-music og gaf út undir þeirra merkjum.
Human woman var samstarfsverkefni Gísla Galdurs Þorgeirssonar og Jóns Atla Helgasonar sem höfðu starfað með þekktum sveitum eins og Motion boys, Fídel og Hairdoctor, samstarf þeirra hófst árið 2009 með því að þeir unnu að endurhljóðblöndun fyrir Gus Gus en fóru fljótlega að semja og vinna eigin tónlist. Fyrr en varði voru þeir félagar farnir að koma fram víða á höfuðborgarsvæðinu með frumsamda tónlist sem var skilgreind sem eins konar rafpopp.
Þeir Jón Atli og Gísli Galdur voru komnir á plötusamning hjá þýska útgáfufyrirtækinu HFN árið 2010 og unnu þeir að plötu sem kom svo út vorið 2012 og bar nafn sveitarinnar, jafnframt komu út smáskífur af lögunum Delusional og Love games bæði í Þýskalandi og Evrópu. Breiðskífan fékk ágætar viðtökur blaðagagnrýnenda hér heima, t.d. ágæta í Fréttablaðinu og Fréttatímanum og mjög góða í Morgunblaðinu.
Sveitin spilaði jafnt og þétt meðan hún starfaði en þeir félagar bjuggu um tíma í Kaupmannahöfn og léku þar töluvert, einnig komu þeir fram á G! festival í Færeyjum auk þess að birtast reglulega hér heima á stöðum eins og Faktorý, Nasa, Austur og víðar. Þá lék sveitin á Sónar bæði hér heima og í Danmörku sem og í nokkur skipti á Iceland Airwaves.
Human woman starfaði líklega til ársins 2016 en það sumar lék dúettinn á listahátíðinni LungA á Seyðisfirði, þá hafði sveitin mestmegnis verið að koma fram í Danmörku um tíma.














































