Húnaver [tónlistartengdur staður / tónlistarviðburður] (1952-)

Frá vígslu Húnavers sumarið 1957

Félagsheimilið Húnaver í Austur-Húnavatnssýslu er með þekktustu samkomuhúsum landsins en þar hafa verið haldnir dansleikir og aðrir tónlistartengdir viðburðir í áratugi. Rétt eins og með önnur félagsheimili hefur dansleikjum þó fækkað mjög í húsinu og þar hefur ferðaþjónustan tekið við keflinu.

Húnaver er með allra fyrstu stóru félagsheimilum landsins en húsið var byggt fljótlega eftir að félagsheimilasjóður var settur á laggirnar undir lok fimmta áratugarins. Undirbúningur að byggingu hússins hófst um 1950 og var því valinn staður í Botnastaðalandi sunnan Hlíðarár á mótum Svartadals og Langadal, og vorið 1952 var hafist handa við að byggja húsið sem teiknað var af Þóri Baldvinssyni. Um fimm ár tók að reisa húsið en Bólstaðarhlíðarhreppur, Ungmennafélag Bólstaðarhlíðarhrepps, Kvenfélag Bólstaðarhlíðarhrepps og Búnaðarfélag Bólstaðarhlíðarhrepps byggðu húsið og fengu til þess framlag úr fyrrnefndum félagsheimilasjóði.

Húsið þótti stórt, gólfflöturinn var um 600 fermetrar og þar var samkomusalur með leiksviði, veitingasalur og íbúð fyrir húsvörð en auk þess var rými í kjallaranum ætlað fyrir bókasafn hreppsins. Bygging hússins þótti mikið þrekvirki en íbúar Bólstaðarhlíðarhrepps voru aðeins um 200 talsins á þeim tíma.

Húnaver 1958

Húnaver var tekið í notkun sumarið 1957, miðvikudaginn 3. júlí fór fyrsti viðburðurinn fram í húsinu en þá var Sinfóníuhljómsveit Íslands á sínu fyrsta ferðalagi um norðan- og austanvert landið og þótti upplagt að hefja tónleikaferðina í hinu nýja og glæsilega húsi, fjórum dögum síðar fór vígsla hússins fram og meðal skemmtiatriða þar var söngur Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps sem gaf flygil til nota í húsinu og tryggði sér í leiðinni æfingaaðstöðu til framtíðar, Gautlandsbræður léku svo fyrir dansi að lokinni vígslunni. Þess má og geta að fljótlega útbjó hestamannafélagið Óðinn keppnisaðstöðu fyrir hestaíþróttir við húsið og þar var einnig gerður íþróttavöllur svo að hestamanna- og íþróttamót voru haldin þarna líka.

Félagsheimilið varð strax afar vinsælt og nýtt til hinna ýmsu menningar- og fræðsluviðburða, það gegndi í raun sama hlutverki og gamla þinghúsið í Bólstaðarhlíð hafði áður gert í marga áratugi og þar fóru fram hvers kyns mannamót – fundir, leiksýningar, tónleikar og auðvitað dansleikir en um þetta leyti voru samgöngur heldur að skána um Norðurland og fólk úr nágrannasýslunum hikaði ekki við að aka langar leiðir til að fara á ball í Húnaveri – reyndar var talað um að Skagfirðingar hefðu að nokkru leyti greitt niður kostnaðinn við byggingu hússins með því að mæta vel á dansleiki þar en Húnaver var aðal ballstaðurinn á stóru svæði norðvestanlands eða allt þar til félagsheimilið Miðgarður í Skagafirði var reist 1967.

Mörg böll voru haldin í húsinu og má segja að fyrsti áratugurinn hafi verið blómaskeið Húnavers, árið 1966 voru t.a.m. haldnir 22 opinberir dansleikir í húsinu. Lengi vel var fastur liður að halda þar dansleiki um verslunarmannahelgar enda voru aðstæður til að tjalda til staðar á svæðinu, og þá var algengt að um 1500 til 2000 manns sæktu böllin í húsinu en yfirleitt voru þrjú böll um þær helgar. Slíkar samkomur hófust líklega 1960 og voru árviss viðburður um verslunarmannahelgarnar allt til 1985 og gengu lengi vel undir nafninu Húnaversgleði – stundum Húnagleði. Í húsinu léku á þeim árum flestar af vinsælustu hljómsveitum landsins s.s. Júdas, Haukar, Brimkló, Trúbrot, Náttúra, Paradís og Stuðmenn svo aðeins fáeinar séu nefndar.

Frá Húnavershátíðinni 1991

Um nokkurra ára skeið í kringum 1990 voru svo haldnar skipulagðar útihátíðir um verslunarmannahelgarnar en þar voru Stuðmenn fremstir í flokki og héldu utan um verkefnið. Hátíðin Húnaver ´89 var sú fyrsta og stærsta en á bilinu 7-8000 gestir sóttu þá hátíð þar sem Stuðmenn, Síðan skein sól, Bubbi Morthens, Geiri Sæm og Hunangstunglið, Nýdönsk og fleiri hljómsveitir héldu uppi stuðinu. Ári síðar var yfirskriftin Rokkhátíð í Húnaveri og þar komu auk Stuðmanna fram sveitir eins og Sálin hans Jóns míns, Síðan skein sól, Nýdönsk og Risaeðlan auk þess sem hljómsveitakeppni var haldin. Svipað fyrirkomulag var ári síðar og með hljómsveitakeppninni var þar gert ráð fyrir allt að fjörutíu og fimm hljómsveitum en þar höfðu Stuðmenn dregið sig út úr viðburðinun en sveitin hafði þá átt í stríði við sýslumann vegna greiðslu á virðisaukaskatti en hljómsveitinni og sýslumanni greindi á um hvort hátíðir á borð við þessa teldust vera tónleikar eða dansleikur – sú hátíð gekk hins vegar illa og mikið tap var á henni. Til stóð að halda stóra hátíð í Húnaveri um verslunarmannahelgina 1994 þar sem aðal hljómsveitin yrði Prodigy en hún var blásin af eftir deilur við sýslumann um sama efni. Eftir það var meira gert út á fjölskyldusamveru og tjaldútilegur í Húnaveri um verslunarmannahelgar.

Húnaver 2001

Samhliða hnignun sveitaballanna fækkaði dansleikjum þegar leið nær aldamótum, þar voru þó enn haldin böll í upphafi nýrrar aldar, sveitir eins og Á móti sól, Sóldögg og Veðurguðirnir léku þar á dansleikum allt til 2009 en eftir það hefur slíkum samkomum fækkað mjög i húsinu eins og annars staðar. Enn eru þó haldin árstíðatengd böll í Húnaveri s.s. þorrablót og slíkt fyrir heimamenn, og einnig hefur húsið og aðstaðan verið leigð út til félaga og hópa – Sniglarnir hafa t.d. oft haldið þar landsmót sitt, harmonikkuunnendur halda þar mót og böll, og hestamenn sömuleiðis, þá hafa hópar eins og Land Rover eigendur haldið þar samkomur, þar eru ættarmót og önnur einkasamkvæmi einnig haldin.

Á allra síðustu árum hafa áherslurnar einnig breyst m.t.t. til aukinnar umferðar erlendra ferðamanna og þar er nú boðið upp á svefnpokapláss og gistingu auk tjaldsvæðisins við Húnaver. Húsið er því enn nýtt með ýmsum hætti þó það sé með ólíku sniði en áður var.