
Hver sagði skál?
Hljómsveitin Hver sagði skál? starfaði innan Menntaskólans að Laugarvatni um þriggja ára skeið, á árunum 1989 til 1992.
Sveitina skipuðu þeir Hjörtur Freyr Vigfússon söngvari og gítarleikari, Svanur Þór Karlsson trommuleikari, Sigurður Már Gunnarsson bassaleikari og Sigmundur Sigurgeirsson hljómborðsleikari. Á einhverjum tímapunkti voru þeir Steinþór Eiríksson og Valdimar Steinar Einarsson starfandi söngvarar hljómsveitarinnar og um skamma hríð var Valur Einarsson líka sem gítarleikari í henni. Einnig tók Sigurður Jónsson saxófónleikari nokkur gigg með hljómsveitinni.
Hver sagði skál? var að nafninu til skólahljómsveit í ML en lék töluvert utan skólans einnig, t.a.m. mun sveitin hafa spilað töluvert í Gjánni á Selfossi og einnig á almennum sveitaböllum, alltént voru þeir félagar mjög virkir meðan þeir störfuðu. Þeir unnu jafnframt nokkuð með frumsamið efni en munu þó ekki hafa sent neitt slíkt frá sér.














































