Hydema (1992-96)

Technodanssveitin Hydema starfaði mitt í danstónlistarvakningunni á tíunda áratugnum, var ekki áberandi en sendi frá sér tvö lög á safnplötum.

Hydema var dúett skipaður þeim Hlyni S. Jakobssyni og Guðmundi Arnarssyni en þeir komu líklega fyrst fram á skemmtistaðnum Berlín sumarið 1992, þá um haustið auglýstu þeir félagar eftir söngkonu í sveitina en virðast ekki hafa haft erindi sem erfiði.

Sveitin var ekki áberandi, hún lék á tvennum tónleikum sumarið 1993, annars vegar í Faxaskála ásamt fleiri sveitum á Óháðu listahátíðinni Ólétt ´93 og hins vegar á Berlín, en svo birtist hún sumarið 1994 með lag (Freaky spoon) á safnplötunni Egg ´94 og spiluðu þá á útgáfutónleikum tengt þeirri plötu í Tunglinu. Eftir það virðist Hydema ekki hafa komið fram opinberlega aftur en átti hins vegar annað lag (Full moon) á safnplötu tveimur árum síðar (1996), Icelandic dance sampler. Eftir það hefur ekkert spurst til sveitarinnar.