
Hydrophobic starfish
Hljómsveit með það undarlega nafn, Hydrophobic starfish starfaði um tveggja ára skeið á höfuðborgarsvæðinu og var á góðri leið með að vekja athygli en hvarf af sjónarsviðinu áður en til þess kom.
Sveitin var stofnuð á fyrri hluta ársins 2009 og skipuðu sveitina líklega í upphafi þau Arnar Pétur Stefánsson gítarleikari, Magnús Benedikt Sigurðsson hljómborðsleikari, Ingvar Egill Vignisson bassaleikari, Höskuldur Eiríksson trommuleikari og Íris Hrund [?] söngkona. Sveitin kom töluvert fram á tónleikum það árið og öðlaðist því reynslu á sviði, og snemma árs 2010 tók Marína Ósk Þórólfsdóttir við sönghlutverkinu af Írisi.
Fljótlega eftir það var sveitin meðal þátttökusveita í Músíktilraunum og komst þar áfram í úrslit án þess þó að komast á verðlaunapall en Magnús Benedikt var jafnframt kjörinn besti hljómborðsleikari keppninnar það árið og Arnar Pétur besti gítarleikarinn.
Í kjölfar velgengninnar í Músíktilraunum lék Hydophobic starfish víða opinberlega, t.a.m. á stóra sviðinu á Arnarhóli á 17. júní og á tónleikum í Mosfellsbæ, og um haustið á Október-fest HÍ, off venue á Iceland Airwaves og víðar. Um það leyti hafði sveitin hljóðritað tvö lög og sent annað þeirra (Leiðin heim) í útvarpsspilun.

Hydrophobic starfish
Sveitin hélt áfram að leika á tónleikum árið 2011, tvisvar sinnum á Faktorý um vorið og sumarið en þá höfðu orðið þær breytingar á sveitinni að Örn Ingi Unnsteinsson hafði tekið við bassanum af Ingvari um vorið og fáeinum vikum síðar varð Gunnar Leó Pálsson trommuleikari í stað Höskuldar. Þannig var sveitin skipuð síðustu mánuðina, hún lék á Ljósanótt í Keflavík síðsumar en Marína var þaðan – en svo virðist sem sveitin hafi hætt störfum fljótlega eftir það.














































