Hymnalaya (2012-14)

Hymnalaya

Hljómsveitin Hymnalaya vakti nokkura athygli á öðrum áratug aldarinnar en sveitin sendi frá sér plötu áður en hún hafði nokkru sinni komið fram opinberlega – í kjölfarið hóf sveitin að koma fram.

Hymnalaya var stofnuð á fyrri hluta ársins 2012 og fór lítið fyrir henni til að byrja með enda lék hún ekkert á tónleikum fyrsta árið, hljómsveitina skipuðu þau Einar Kristinn Þorsteinsson söngvari og gítarleikari, Gísli Hrafn Magnússon gítarleikari, Kristófer Rodriguez Svönuson trommuleikari og Þórdís Björt Sigþórsdóttir fiðluleikari.

Í febrúar 2013 sendi sveitin óvænt frá sér breiðskífuna Hymns á Internetinu en um var að ræða tólf laga skífu með frumsömdum lögum innblásnum af sálmum frá ýmsum tímum og áttum, en tónlistin var skilgreind sem eins konar jaðarþjóðlagapopp, á henni léku nokkrir aðstoðarmenn með sveitinni. Hymns hlaut góðar viðtökur gagnrýnenda Morgunblaðsins og Fréttablaðsins og svo fór að platan var gefin út á efnislegu formi um sumarið af Record records.

Hymnalaya

Hymnalaya var ekki stætt á öðru en að fylgja útgáfu plötunnar eftir með spilamennsku og fljótlega eftir að hún kom út á netinu hóf sveitin að leika á tónleikum víða um land, fyrst á Rósenberg en svo um sumarið á stöðum eins og Faktorý, 12 tónum og Lucky records, og síðan úti á landi á tónlistarhátíðinni Gærunni – reyndar hafði einnig staðið til að sveitin léki á Rauðisandur festival en þeirri hátíð var aflýst vegna veturs. Síðsumars og um haustið lék sveitin svo á Menningarnótt og Iceland Airwaves og hafði þar með stimplað sig inn í íslenskt tónlistarlíf á fáeinum mánuðum.

Hymnalaya lék fremur lítið um veturinn en meira fór fyrir henni þegar komið var nokkuð inn á nýtt ár 2014, sveitin lék þá m.a. á Halfway festival í Póllandi en einnig hér heima á Reykjavík folk festival og Secret Solstice – um það leyti átti sveitin lag á safnplötunni This is Icelandic indie music: Volume 2 en það var lag af breiðskífu sveitarinnar. Eftir það fór heldur að draga úr tónleikaspilamennsku, sveitin lék á Iceland Airwaves um haustið og virðist síðan hafa hætt störfum.

Efni á plötum