Jesse James
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Árnason)
Reistur í hnakknum sat
útlaginn Jesse James,
er hann á spretti reið
víðáttur Vesturheims.
Skammbyssum sínum úr
skaut hann á hvað sem var.
Af honum líka fór
orð fyrir kvennafar.
Utan við gleðihús
eitt sinn um kvöld hann stóð.
Þá birtist sjónum hans
þéttholda frú og rjóð.
Brennandi fann hann strax
bríma í hverri æð.
Ginnandi sat hún við
glugga á þriðju hæð.
Tafarlaust þangað upp
til hennar sér hann brá.
(Léttlega fór hann með
lögmálið Newtons þá).
Í hennar heita faðm
allur á kaf hann sökk.
(Þetta var ekki neitt
venjulegt stangarstökk).
Hár hennar var sem bik,
hörundið hvítt sem mjöll.
Fagnandi honum tók
konan á iði öll.
Aldrei hann hafði fyrr
þekkt slíkan ástarþrótt
né heldur upplifað
þvílíka þrumunótt.
„Ljúfan mín,“ sagði hann,
„lítinn ég byggja skal
kofa með gluggum tveim
hátt uppí heiðardal
lindinni bláu hjá
lyngholti fögru í.
Iðka við skulum þar
ævilangt kelerí.“
Gaf hann á þeirri nótt
geysimörg fleiri slík
loforðin heillandi,
loforðin unaðsrík.
En við þau loforð sín
ekki hann staðið gat.
Rokinn í burt hann var
strax eftir morgunmat.
Eftir það hún af sorg
alveg hreint bugast lét.
Samfleytt í vikur fimm
grét hún og grét og grét.
Sögðu um það táraflóð
þeir sem að sáu það:
„Þetta er engu líkt.
Þetta er sturtubað.“
Skínandi veður björt
skipast oft lofti í.
Endar mörg sælan skjótt;
örlögin ráða því.
Mæðufullt lífið er;
mætast á nóttu skip;
burthorfin eru þau
síðan í einum svip.
Hljóð er hún nóttin dimm;
hlæja þá orð á vör.
Þegar svo dagur rís
þá ræður enginn för.
Þeysa um eyðisand
hamslausir hestamann.
Vegir þar liggja til
áttanna allra í senn.
[engar upplýsingar um lagið á plötum]














































