Jón Hallfreð Engilbertsson (1955-2024)

Jón Hallfreð Engilbertsson

Jón Hallfreð Engilbertsson var áberandi í vestfirsku tónlistarstarfi um árabil, starfaði með fjölda hljómsveita og tók virkan þátt í tónlistar- og leiksýningum sem settar voru upp á Ísafirði, hann var jafnframt laga- og textahöfundur en fátt eitt hefur komið út af því efni.

Jón Hallfreð (Halli) var fæddur á Ísafirði en ólst upp á Tirðilmýri á Snæfjallaströnd við Ísafjarðardjúp. Þegar hann var við skólagöngu við Héraðsskólann á Reykjanesi hóf hann að leika á gítar með skólahljómsveit þar sem bar nafnið Amma Tiktúra en hann var þá um fjórtán ára gamall. Fáeinum árum síðar lék hann ásamt Hjalta Jóhannssyni undir nafninu Dúett 73 við vígslu félagsheimilisins Dalbæjar á Snæfjallaströnd.

Jón Hallfreð fór suður til Reykjavíkur í iðnnám og á námsárum sínum og í framhaldinu lék hann á gítar (og söng jafnvel) með nokkrum sveitum syðra s.s. Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar, Tríói 72 og fleiri sveitum en á þessum árum sótti hann jafnframt námskeið hjá Róbert A. Ottóssyni í Tónskóla þjóðkirkjunnar og nam þar tónlist og tónfræði. Þó svo að gítar hafi verið aðal hljóðfæri Jóns Hallfreðs lék hann á flest hljóðfæri og þegar hann var kominn fram á miðjan aldur fór hann í kennaranám við Háskólann á Akureyri og kenndi svo við tónlistarskólana á Ísafirði og í Bolungarvík.

Árið 1978 flutti Jón Hallfreð aftur vestur og þá settist hann að á Ísafirði þar sem hann bjó og starfaði síðan. Þar hóf hann að leika með ísfirsku tónlistarfólki í hljómsveitum eins og Gancia, Líparít, Gabríel (sem hét um tíma Rock og co.) og Dolby, einnig lék hann með Ásgeiri Sigurðssyni harmonikkuleikara sem var lengi með hljómsveit fyrir vestan. Jón Hallfreð söng nokkuð einnig en hann var um árabil í karlakórnum Erni auk Kórs Ísafjarðarkirkju, þá var hann meðlimur Söngfjelagsins úr Neðsta – söng þar bassarödd.

Jón Hallfreð

Jón Hallfreð starfaði töluvert með stöku tónlistarfólki eftir 1990 eða um það leyti sem pöbbamenningin var að hefja innreið sína því ekki var alltaf svigrúm fyrir heilar hljómsveitir á litlum sviðum, þannig kom hann stundum fram með Guðmundi Hjaltasyni, Alfreð Erlingssyni og Þórunni Snorradóttur en einnig með þeim Alfreð og Þórunni sem tríó undir nafninu Rós, með Þórunni hélt Jón Hallfreð t.a.m. utan um Ögurballið svokallaða en það er árlegur dansleikur haldinn í Ögri í Ísafjarðardjúpi. Hann vann jafnframt heilmikið með Litla leikfélaginu á Ísafirði, annaðist þá tónlistarflutning á leiksýningum ásamt fleirum en kom einnig mikið að ýmsum tónlistarsýningum sem settar voru á svið vestra, þannig sá hann t.d. um tónlistarstjórn á rokkhátíð sem bar yfirskriftina Bara gaman (1992), lék í Sönglagakeppni Vestfjarða (2010) o.fl. en hann kom að fjölmörgum slíkum hátíðum sem flestar munu hafa verið haldnar í Krúsinni (Alþýðuhúsinu á Ísafirði). Hann stóð fyrir ýmsu tónleikahaldi ásamt fleirum fyrir jól og páska á Ísafirði og var þannig mikilvægur hlekkur í öflugu tónlistarlífi Ísfirðinga.

Jón Hallfreð samdi nokkuð af tónlist og eftir hann liggja um tvö hundruð lög og einnig nokkurt magn texta en hann var hagyrtur og t.d. birtust fjölmörg kvæði eftir hann í bókinni Minningarrit um Jón Hallfreð Ingvarsson (2021) sem var föðurbróðir hans. Fæst laga Jóns Hallfreðs hafa verið gefin út en fáein laga hans og textar hafa komið út á safnplötum eins s.s. Vestan Vindar (1989) og Music from the west (2015), nokkur þeirra hafa jafnframt verið flutt opinberlega og hefur karlakórinn Ernis t.a.m. flutt lagið Snæfjallaströnd (og textann) eftir hann. Gítarleik hans er jafnframt að heyra á plötu Baldurs Geirmundssonar – Haust (2010) og fyrrnefndri Vestan vindum þar sem hann lék með hljómsveitinni Dolby, hann hannaði einmitt umslag þeirrar plötu.

Jón Hallfreð Engilbertsson lést snemma árs 2024, tæplega sjötugur að aldri.