Kuml [1] (1995-98)

Kuml

Pönksveitin Kuml starfaði um nokkurra ára skeið undir lok síðustu aldar, nokkur lög komu út með sveitinni á safnplötu nokkru eftir að hún hætti störfum.

Kuml var stofnuð á fyrstu mánuðum ársins 1995 og kom líklega fram í fyrsta sinn þá um vorið opinberlega en spilaði töluvert mikið á tónleikum næstu þrjú árin og var mjög virk í þeirri hardcore pönksenu sem þá var að fara í gang og mun t.a.m. hafa haft nokkur áhrif á hljómsveitina Mínus og fleiri sveitir sem síðar áttu eftir að koma fram á sjónarsviðið.

Hljómsveitina skipuðu m.a. einhverjir þeirra sem höfðu verið viðloðandi pönksveitina Sjálfsfróun nokkrum árum fyrr en meðlimir Kumls voru þau Einar Friðjónsson (Einar Krautzwel / Einar vélsög) bassaleikari, Friðrik Álfur Mánason (Svarti Álfur) söngvari, Berglind Hólm Harðardóttir söngkona, Númi Björnsson gítarleikari, Björgvin Freyr Jóhannesson gítarleikari og Jónbjörn Valgeirsson trommuleikari. Þannig var sveitin skipuð allan þann tíma sem hún starfaði.

Kuml hætti störfum árið 1998 en tveimur árum síðar kom safnplatan Pönkið er dautt út á vegum Örkuml-útgáfunnar, á þeirri skífu átti sveitin fjögur lög og á útgáfutónleikum tengdum þeirri plötuútgáfu kom Kuml saman á nýjan leik en auk þess er nokkuð af efni með sveitinni að finna á Youtube. Sveitin var svo endurreist árið 2015 og starfaði þá um nokkurt skeið, spilaði þá m.a. á Norðanpaunk hátíðinni á Laugarbakka í Miðfirði.