Kvalasveitin (1982-83)

Kvalasveitin

Hljómsveitin Kvalasveitin (einnig nefnd Hvalasveitin) starfaði í nokkra mánuði yfir veturinn 1982 til 83 og lék á fáeinum tónleikum en við litla hrifningu af því er virðist því fjölmiðlafólk á þeim tíma var almennt sammála um að sveitin bæri nafn með rentu. Tónlist sveitarinnar mun hafa verið eins konar gjörninga- eða tilraunatónlist.

Kvalasveitin mun hafa verið stofnuð sumarið 1982 upp úr dúettnum Magnúsi í hvalnum sem þeir Magnús Sigurðarson básúnuleikari og Haraldur Flosi Tryggvason hljómborðsleikari skipuðu en engar upplýsingar finnast um aðra meðlimi sveitarinnar – hún mun hafa verið fjögurra manna.

Sveitin kom fyrst fram síðsumars á tónleikum og lék svo í nokkur skipti m.a. á SATT-kvöldum í Klúbbnum og í Norðurkjallara MH um veturinn. Hún kom síðast fram í febrúar 1983 og virðist hafa hætt störfum fljótlega upp úr því.