Kvartettinn og Kristján (eða HGH kvartettinn og Kristján eins og hún var einnig nefnd) starfaði á Bíldudal á sjötta og sjöunda áratugnum en hún hafði áður gengið undir nafninu HGH tríóið. Það voru þeir Jón Ástvaldur Hall Jónsson gítarleikari, Hreiðar Jónsson harmonikkuleikari og Guðbjörn Jónsson trommuleikari sem höfðu skipað tríóið en þegar Guðmundur R. Einarsson gekk til liðs við tríóið varð það að HGH kvartettnum.
Árið 1957 vildu þeir félagar bæta við sig söngvara og bættist þá í hópinn Jón Kristján Ólafsson eða Jón Kr. Ólafsson eins og flestir þekkja hann, reyndar stóð til að fá söngkonu til liðs við sveitina en engin stúlka á Bíldudal fékkst til að taka það hlutverk að sér. Við þessar breytingar varð sveitin að Kvartettnum og Kristjáni (einnig kölluð HGH kvartettinn og Kristján), það mun reyndar hafa tekið nokkurn tíma fyrir Jón Kr. að aðlagast danstónlistinni því hann hafði tilhneigingu til klassískrar framsetningar í söng, en að lokum varð hann hinn frambærilegasti söngvari og varð reyndar þekktur með hljómsveitinni Facon nokkru síðar.
Kvartettinn og Kristján starfaði undir því nafni og lék á dansleikjum í heimabyggð og víðar um Vestfirði næstu árin, líklega allt til haustsins 1962. Um tíma mun Grétar Ingimarsson trommuleikari (síðar Facon) hafa starfað með sveitinni en ekki liggur fyrir nákvæmlega hvenær.














































