Lag síns tíma
(Lag og texti: Fannar Ingi Friðþjófsson)
Ég er kominn á svo góðan stað.
Ég er kominn á svo góðan stað.
Ég er kominn á svo góðan stað
komin regla, komin rútína
vakna snemma, bjóða góðan dag
að vera ég er allt í einu orðið svo gaman.
Ég er fyrirmynd
þó ég eigi synd
megið ekki vera blind
því ég er ekki fullkominn.
Verð að beisla mína athygli
í leit að lífi sem mig langar í
hvað er langur tími þangað til
að ég mun loksins eiga einhvers konar efni á því.
En það
er allt í góðu
þó hlutirnir séu
stundum í móðu
hamingjan
er oft smá róður
stundaglas
verður að tómu
er ég vonlaus jedi eða er ég góður sith
er ég honest gæi eða er ég piece of shit
eftir svörum leita stöðugt til að hugga mig
og kemst að gömlu góðu klisjunni, staðreyndin, að ég er ekki einn.
Ég er ekki einn
ég er ekki að verða of seinn
skammast mín ekki neitt
og segi það hreint
að ég er
óviti
án áttavita
hefði átt að vita
hversu margir hafa misst það
við það eitt að
dreyma heitt
um það að segja eitthvað
ég vona að einhver hérna skilji mig.
Ég er kominn á svo góðan stað.
Ég er kominn á svo góðan stað.
Ég er kominn á svo góðan stað
eða hvað?
ekki láta óttann gleypa þig
ekki láta myrkrið taka þig
finndu styrkinn ekki hlaupa á þig
búðu til virki fyrir engan nema sjálfan þig.
Hlúðu að sárunum
haltu aftur tárunum
hvað varð úr árunum
hvað í fjáranum.
Þegar mér líður svona einmana
finnst mér gott að horfa á stjörnurnar
þær minna mig á óendanleikann
og segja mér að þarna úti er ekkert lokasvar.
Líttu upp
en ekki áfram
lífið er stutt
það er engin gáta
trúðu að gott
muni rætast
það er svo hollt
að ná að sættast
fólk mun segja þér að stoppa til að hugsa smá
spyrja er þetta hérna það sem að þú ert að þrá
á bakvið það er sjálfsagt ekkert nema eintóm ást
því þau hafa sömu áhyggjur og vandamál.
Svo ef þú svarar öllum einlægt að þú ert að kljást
muntu fá þá gjöf á móti að fleiri eru að fást
við það sama og þið saman getið gefið ráð
til hvors annars af því annars muntu lifa og spá.
Er þetta virkilega málið
eða er ég vandamálið
horfir í spegilinn og spáir
hvernig er annað fólk að sjá þig
en fokk það
þett’ er nóg
gerum mistök, gefum í
segjum ó.
Óviti
án áttavita
hefði átt að vita
hversu margir hafa misst það
við það eitt að
dreyma heitt
um það að segja eitthvað
ég vona að einhver hérna skilji.
Lög síns tíma
augun við símann
andleg glíma
klippa út og líma
orð sem ríma
með valkvíða
um hvað næsta lína
eigi eiginlega að þýða.
Ég vil hlæja
ég vil gráta
ég vil öskra
ég vil játa
að ég þurft’ að
fá smá aðstoð
til að geta
haldið áfram
því þó ég harka
allt af mér
þá er ég alltaf
að leita af sjálfum mér
þett’ er stóra
vandamálið
karlmennskan
er ekk’ úr stáli.
Svo þegar á hólminn
loks er komið
er náttúran
okkar með orðið
hvað með að hugsa
aðeins lengra
fram í tímann
heldur en hingað.
Sumt er betra að syngja en að segja
ég kýs það frekar en að þegja.
Ég er kominn á svo góðan stað
ég er tilbúinn að fullorðnast.
Ég er kominn á svo góðan stað
þetta lag er fyrir krakkana.
[af plötunni Hipsumhaps – Lög síns tíma]














































