Lognið við stríð
(Lag / texti: erlent / Hinrik Bjarnason)
 
Vorið um veginn fer,
vekur enn þrá hjá mér,
þrá eftir tryggari tíð,
tímanum fyrir stríð.
Flóinn er sveipaður sólbrá í dag
og við syngjum þetta lag.
Þá söng um Suðurland
sólskin og logn í bland,
kjóar og kríur í slag,
kókó hvern sunnudag.
Sunnanátt læðist um sandinn í dag
og við syngjum þetta lag.
Fjaran er furðu brún,
falleg og loðin tún.
Bændur, þeir byrja að slá
bráðum með orfi‘ og ljá.
Sefur hver bára á sjónum í dag
og við syngjum þetta lag.
Mild ertu, morgunsól,
mamma í bláum kjól
komin með kaffi‘ út á hlað,
klatta – og hver veit hvað.
Bátarnir sigla um Sundið í dag
og við syngjum þetta lag.
Klappir og kynjalón,
kurrandi æðarhjón.
Hafdúpin sefandi sog
senda um byggð og vog.
Útvarpið sagði frá síldinni‘ í dag
og við syngjum þetta lag.
Stokkseyri, stund um vor,
stillur og hálfgleymd spor
langt aftur í liðinni tíð
í logninu fyrir stríð.
Flóinn er sveipaður sólbrá í dag
og við syngjum þetta lag.
[af plötunni Bragsmiðurinn Hinrik Bjarnason áttræður – ýmsir]














































