Nú kemur vorið (Draumur öldunnar)
(Lag / texti: erlent lag / Sigurður Óskar Pálsson)
Nú kemur vorið sunnan að og sólin bræðir ís,
við sendna strönd í fjarðarbotni lítil alda rís
og hvíslar: „Það er langt síðan ég lagði af stað til þín.
Nú loks ég finn að komin er ég, komin heim til mín.
Úr draumi frá í vetur enn ég þekki þessa strönd.
Nei, þannig fengu ei heillað suðræn ævintýralönd.
Ó, strönd míns lands, mig dreymdi að ég deyja ætti hér.
Minn draumur rætist því nú hníg ég ein að brjósti þér.“
[m.a. á plötunni Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar – Austfirskir staksteinar III]














































