Heimildir eru um að söngstarf hafi verið fyrir hendi innan Verzlunarskóla Íslands síðan laust eftir 1930 og nokkuð samfleytt næstu áratugina á eftir, framan af voru þessir kórar kallaðir Söngfélag Verslunarskólans og miðast sú nafngift við þessa umfjöllun til 1940 en eftir seinna stríð virðist vera komin sú hefð á að tala um Kór Verslunarskólans og fá þeir því sína hvora umfjöllunina á Glatkistunni.
Elstu heimildir um Söngfélag Verslunarskólans eru frá 1932 og var um karlakór að ræða, Páll Halldórsson var stjórnandi þessa söngfélags að minnsta kosti til 1933 en þremur árum síðar hafði Gunnar Sigurgeirsson tekið við stjórn kórsins (sem þá innihélt 24 söngmenn), svo virðist sem þá hafi einnig verið blandaður kór innan skólans. Kórinn söng mestmegnis innan skólans, á skemmtunum svo sem á Nemendamóti VÍ sem haldið var í fyrsta sinn 1932 en hann kom einnig eitthvað fram utan skólans á þessum árum.
Söngfélag starfaði innan Verslunarskólans líklega nokkuð samfellt til 1939 en ekki liggja fyrir upplýsingar um söngstjóra síðustu ár áratugarins, né heldur hvort einungis var um karlakór að ræða en það hlýtur þó að vera líklegt.














































