Söngfélagið Bára (1883-1903)

Blómlegt tónlistarlíf var á Eyrarbakka undir lok 19. aldar enda kemur mikil tónlistarætt frá svæðinu, þar var m.a. söngfélag, blandaður kór sem starfaði um tveggja áratuga skeið og hélt úti öflugu söngstarfi.

Söngfélagið sem ýmist er í heimildum kallað Söngfélag Eyrarbakka (Söngfélag Eyrbekkinga) eða Söngfélagið Bára (Báran) var stofnað árið 1883 á Eyrarbakka, litlar upplýsingar er að finna um starfsemi þess framan af en árið 1889 hafði Jón Pálsson tekið við söngstjórn þess en hann var frá Stokkseyri og var bróðir Ísólfs Pálssonar tónskálds og þ.a.l. frændi Páls Ísólfssonar, Sigurðar Ísólfssonar, Þuríðar Pálsdóttur og Sigfúss Einarssonar en sá síðastnefndi hóf tólf ára gamall að syngja með Bárunni. Undir stjórn Jóns, sem einnig var organisti við Eyrarbakkakirkju, söng söngfélagið heilmikið opinberlega, bæði við messuhald í kirkjunni en einnig á tónleikum sem ýmist voru haldnir í kirkjunni eða samkomuhúsinu í þorpinu.

Fyrir liggur að Söngfélagið Báran starfaði til ársins 1903 en þá um vorið söng kórinn á þremur samsöngvum eða tónleikum, það sama ár fluttist Jón söngstjóri líklega til Reykjavíkur og er líklegt að söngfélagið hafi um það leyti lagt upp laupana