Karlakór var stofnaður innan verkamannafélagsins Dagsbrúnar vorið 1920 og starfaði í nokkur ár undir nafninu Söngfélagið Bragi. Félagið var afar virkt, um þrjátíu manns skráðu sig strax í það og fljótlega var sú tala komin upp í fjörutíu – ekki liggur fyrir hvort fjölgaði enn frekar í því. Pétur Lárusson var ráðinn söngkennari og söngstjóri og stjórnaði hann líklega söngnum mest allan tímann en Hallgrímur Þorsteinsson mun einnig hafa stjórnað honum um hríð, æfingar fóru fram víða um Reykjavík, í Góðtemplarahúsinu við Tjörnina (Gúttó), Bárubúð og jafnvel Hljómskálanum, sem þá var nýbyggt.
Söngfélagið Bragi hélt ótal söngsamkomur meðan það starfaði, fyrst um sinn á samkomum innan Dagsbrúnar en svo einnig utan þess, þannig hélt Bragi stundum styrktartónleika fyrir ýmis málefni. Kórinn starfaði til ársins 1924 en virðist þá hafa dáið drottni sínu eftir um fjögurra ára sögu.














































