
Söngfélagið Harpa 1944
Söngfélag eða blandaður kór var starfandi innan alþýðuflokksfélags Reykjavíkur í ríflega áratug rétt um miðbik síðustu aldar, saga kórsins skiptist í rauninni í tvennt – annars vegar var um söngfélag að ræða sem söng á skemmtunum og öðrum samkomum á vegum alþýðuflokksins en hins vegar metnaðarfullan kór sem hélt tónleika og söng stærri söngverk.
Söngfélagið Harpa var stofnað snemma árs 1938 innan alþýðuflokksfélagsins og hóf þegar að æfa söng undir stjórn Ólafs Markússonar, nokkur söngvakning hafði þá verið í landinu og ótal kórar og söngfélög af ýmsu tagi höfðu sprottið upp hvarvetna og var Harpa nokkuð hefðbundin hvað það snerti og söng almenn kórsönglög á skemmtunum alþýðuflokksfélaganna og tengdum samkomum, söngfélagið æfði mikið enda var þetta fyrst og fremst félagsskapur þar sem fólk kom saman til að syngja og skemmti svo öðrum við tækifæri.
Haustið 1941 urðu þáttaskil hjá Hörpu þegar Róbert A. Ottósson (Dr. Robert Abraham) var fenginn til að taka við söngstjórninni en hann var þýskur gyðingur sem hafði flúið til Íslands 1935 og var nýkominn suður til Reykjavíkur eftir að hafa verið á Akureyri fyrstu árin. Hann tók sönginn hjá söngfélaginu upp á næsta stig, enda fagmaður, og undir hans stjórn hóf kórinn að æfa markvissar og um leið byrjaði kórinn að syngja stærri kórverk. Segja má að nýi kórinn hafi verið frumsýndur þegar hann tók þátt í uppfærslu á Árstíðunum eftir Haydn í Gamla bíó vorið 1943 ásamt Hljómsveit Reykjavíkur en þeir tónleikar voru á vegum Tónlistarfélagsins í Reykjavík. Kórinn sem þarna innihélt um þrjátíu manns þótti gera góða hluti og hlaut ágæta dóma fyrir sönginn. Og þar með var Söngfélagið Harpa orðið að faglegum kór og tók þátt í fleiri slíkum uppfærslum og tónleikum í Þjóðleikhúsinu og Trípólí bíói á næstu árum, kórinn gekk jafnframt í Landssamband blandaðra kóra og hlaut síðan styrk hjá bæjarráði í Reykjavík til að fara á norrænt kóramót alþýðukóra í Kaupmannahöfn. Harpa söng þó áfram hefðbundin kórlög og hélt einnig sjálfstæða tónleika en söng orðið minna á skemmtunum alþýðuflokksfélaganna þótt tengslin slitnuðu reyndar aldrei.
Árið 1947 tók Róbert við Útvarpskórnum og hætti því með söngfélagið en Victor Urbancic tók við kórstjórninni, undir hans stjórn var áfram unnið í sama anda og flutti kórinn m.a. verk eftir Karl O. Runólfsson ásamt Symfóníuhljómsveit Reykjavíkur (sem var einn af undanförum Sinfóníuhljómsveitar Íslands) en eftir að Urbancic hætti með kórinn sumarið 1948 fór minna fyrir honum um tíma. Harpa birtist svo aftur á nýju ári (1949) og þá hafði Jan Morávek tekið við söngstjórninni, þá hafði kórinn sameinast Samkór Reykjavíkur undir Hörpunafninu og um tíma voru því um fjörutíu og fimm meðlimir í kórnum en tveimur árum síðar (1951) hóf samkórinn aftur að starfa undir því nafni og um svipað leyti gaf Söngfélagið Harpa upp öndina. Auglýst var eftir nýjum röddum en það bar líklega ekki árangur og líklegt er að kórinn hafi þarna sameinast Söngfélagi verkalýðsfélaganna, sem síðar hlaut nafnið Alþýðukórinn.














































