Söngfélagið Harpa [6] (1939-43)

Íslenskt söngfélag starfaði á stríðsárunum í Bellingham í Washington ríki í Bandaríkjunum undir stjórn Helga Sigurðar Helgasonar. Það gekk undir nafninu Söngfélagið Harpa og sótti stjórnandinn nafnið ekki langt yfir skammt því föðurbróðir hans, Jónas Helgason hafði einmitt stofnað söngfélag undir sama nafni í Reykjavík nokkrum áratugum fyrr.

Söngfélagið Harpa var líklega stofnað á fyrri hluta árs 1939 og söng nokkuð opinberlega, og fór m.a. í söngferð um Íslendingaslóðir á vesturströnd Bandaríkjanna.

Harpa tók sér hlé árið 1943 vegna ástandsins í heiminum en heimsstyrjöldin stóð þá hvað hæst og er ekki ólíklegt að herkvaðning hafi haft áhrif á þá ákvörðun, söngfélagið tók aldrei til starfa aftur eftir það hlé og var því hætt störfum.