Söngfélagið Hekla [2] (1910-20)

Litlar upplýsingar er að finna um blandaðan kór, söngfélag Íslendinga í Vancouver í Kanada sem starfaði á öðrum áratug 20. aldar. Vitað er að kórinn var settur á laggirnar 1910 og hlaut nafnið Söngfélagið Hekla eftir að hafa fyrst um sinn gengið undir nafninu Söngfélag Íslendinga í Vancouver, það var þó ekki fyrr en haustið 1911 sem hann var stofnaður formlega en Bjarni Lyngholt var stofnandi kórsins – hann lagði jafnframt til æfingahúsnæðið, líklega var Bjarni aldrei kórstjórnandi en maður sem ýmist er kallaður John Johnsson eða Jón Jónsson mun hafa annast söngstjórnina.

Söngfélagið Hekla söng eitthvað opinberlega, mestmegnis á formlegum skemmtunum Íslendinganna í Vancouver en að öðru leyti liggur lítið fyrir um þennan kór, svo virðist sem hann hafi starfað að minnsta kosti til 1913 en þó segir í einni heimild að kór Íslendinga hafi verið starfandi í Vancouver árið 1920 – þar er líklega um sama kór að ræða en óvíst er hvort kórstarfið hafi þá verið samfellt allan tímann.