Söngfélagið Húnar (1942-58)

Söngfélagið Húnar (einnig stöku sinnum kallað Húnvetningakórinn) var stofnaður innan Húnvetningafélagsins í Reykjavík að öllum líkindum árið 1942 en Húnvetningafélagið hafði verið stofnað sex árum fyrr. Kórnum var stundum ruglað saman við karlakórinn Húna sem um svipað leyti starfaði í Húnavatnssýslu, Söngfélagið Húnar var hins vegar blandaður kór.

Söngfélagið Húnar starfaði fyrstu árin innan Húnvetningafélagsins en varð síðar sjálfstæð eining óháð félaginu þrátt fyrir að syngja stundum á skemmtunum tengdu því s.s. Húnavöku o.fl., þá söng kórinn oft utan félagsins einnig og má m.a. geta að hann söng við vígslu Borgarvirkis fyrir norðan árið 1950.

Strax árið 1942 gekk Söngfélagið Húnar í Landsamband blandaðra kóra og virðist Áskell Jónsson hafa verið fyrstur stjórnenda þess, Ragnar Björnsson átti síðan eftir að stjórna söngnum um fáeinna ára skeið áður en Garðar G. Viborg tók við árið 1949 og síðan Helgi Tryggvason líklega í kringum 1953. Minna fór fyrir kórnum á sjötta áratugnum og virðist hann hafa starfað allt til ársins 1958 en hætt um það leyti, það árið munu um 25 manns hafa verið í kórnum en ekki liggur fyrir hversu stór hópurinn var almennt.

Nýr kór var stofnaður innan Húnvetningafélagsins laust eftir miðjan sjöunda áratuginn en það var hinn eiginlegi Húnvetningarkórinn í Reykjavík.