Söngfélagið Svanur eða Söngfélag Seltjarnarneshrepps var með fyrstu starfandi söngkórum hér á landi en margt er á huldu varðandi sögu þess og er þessi umfjöllun nokkuð lituð af því.
Guðmundur Einarsson þáverandi söngkennari á Seltjarnarnesi stofnaði söngfélagið 1874 eða 75 en hann var stjórnandi þess fyrstu árin og æfði kórinn þá í barnaskólanum í Mýrarhúsum. Í kringum 1880, hugsanlega einu eða tveimur árum síðar tók Þorsteinn Jónsson við stjórn Svans en hann var þá bráðungur, líklega á sautjánda ári og hafði áður hlotið styrk söngfélagsins til að læra fiðluspil og söngstjórn hjá Jónasi Helgasyni tónlistarfrömuði. Þorsteinn mun hafa annast söngstjórnina í um fimmtán ár að sögn heimilda en það var starfandi að líkindum allt til ársins 1898. Ekki liggur þó fyrir hvort Þorsteinn var stjórnandi söngfélagsins alla þá tíð.
Söngfélagið Svanur söng stöku sinnum á opinberum vettvangi, t.a.m. söng það fyrir sjúklinga á sjúkrahúsi – líklega í Reykjavík, en einnig á almennum skemmtunum.
Engar heimildir er að finna um stærð söngfélagsins, hvort um var að ræða karlakór eða blandaðan kór, eða hvers konar tónlist var í lagavali þess.
