
Auglýsing fyrir Sönglög á Suðurlandi
Árið 1990 var haldin sönglagakeppni sem hlaut nafnið Sönglög á Suðurlandi en hugmyndasmiðurinn að henni var Ólafur Þórarinsson (Labbi í Mánum) sem þá var skemmtanastjóri á Hótel Selfossi en hljómsveit hans, Karma sá um allan undirleik í keppninni.
Nokkur undankvöld voru haldin og fóru úrslitin fram í apríl þar sem ellefu lög kepptu til úrslita, þar bar Sigríður Herdís Leósdóttir sigur úr býtum með lagið Kveðja, Ingibjörg Erlingsdóttir varð í öðru sæti með lagið Svona er lífið (við texta Jóns Bjarnasonar) og í þriðja sæti var lag Erlings Bjarnasonar, Horfnir vinir. Önnur lög í úrslitum keppninnar voru Skyndibiti (e. Sigurð Fannar Guðmundsson), Elli egó (e. Torfa Áskelsson), Eitt er víst (e. Jóhann Örn Arnarson), Aftanskin (e. Jón Þorsteinsson), Löng leið (e. Tryggva Sveinbjörnsson), Hví er ég að þessu (e. Davíð Kristjánsson), Í gær (e. Steindór Leifsson) og Á veiðum (e. Pál Guðmundsson).
Um sumarið kom svo út kassettan Sönglög á Suðurlandi ´90: dægurlagakeppni, með lögunum ellefu úr keppninni en þau höfðu verið hljóðrituð í Stúdíó Glóru. Efnið var endurútgefið á geisladiski vorið 2024.














































