
Söngsystur 1994
Sönghópurinn Söngsystur vakti töluverða athygli undir lok síðustu aldar og kom víða fram opinberlega, m.a. í tónlistarsýningum á Hótel Íslandi – hópurinn hafði að geyma söngkonur sem síðar urðu þekktar sem slíkar.
Söngsystur munu hafa orðið til snemma árs 1994 eftir að nokkrar stúlkur á menntaskólaaldri kynntust á söngleikjanámskeiði og ákváðu að stofna til samstarfs að því loknu, stúlkurnar sem upphaflega voru tíu talsins voru þær Arna Björk Jónsdóttir, Ingibjörg Gísladóttir, Lóa Björk Jóelsdóttir, Berglind Pála Bragadóttir, Regína Ósk Óskarsdóttir, María Johnson, Lilja Sigurðardóttir, Bryndís Sunna Valdimarsdóttir, Jóna Sigríður Grétarsdóttir og Katrín Hildur Jónasdóttir.
Hópurinn fór fljótlega af stað með söngdagskrá, blöndu íslenskra og erlendra laga frá ýmsum tímum og höfðu þær Söngsystur nóg að gera m.a. við að skemmta á árshátíðum, í einkasamkvæmum og þess konar uppákomum, og smám saman höfðu þær skapað sér nógu stórt nafn til að halda söngskemmtanir t.d. í Þjóðleikhúskjallaranum og svo á Hótel Íslandi þar sem þær urðu partur af stærri dagskrá.

Söngsystur
Eftir því sem meira var að gera fækkaði í hópnum um helming og eftir voru þá Bryndís Sunna, Jóna Sigríður, Katrín Hildur, Lóa Björk og Regína Ósk. Þær komu nokkuð fram ásamt hljómsveitinni Langbrók, m.a. á Hótel Íslandi þar sem þær komu við sögu á tónlistarsýningunni Bítlaárin en sú sýning gekk við miklar vinsældir í marga mánuði. Árið 1996 var sýnu mest að gera hjá Söngsystrum og þá komu þær við sögu á fjórum plötum, safnplötunum Gæðamolum þar sem þær fluttu lagið Suðræn sæla og Jólahátíð: söngvar, kvæði og sögur með lagið Herra Jóli, á plötunni Ástartöfrar: lög Valdimars J. Auðunssonar harmóníkuleikara (föður Bryndísar Sunnu) með lagið Töfrandi tónar og svo á plötunni Bítlaárin ‘60 – ’70: ’68 kynslóðin skemmtir sér, sem gefin var út í tengslum við samnefnda sýningu á Hótel Íslandi – á þeirri plötu sungu Söngsystur í fjórum lögum.
Samhliða Söngsystrum sungu þær Bryndís Sunna og Regína Ósk í hljómsveitinni Doríu um haustið 1997 en sú sveit hafði verið stofnuð upp úr Langbrók, Doría starfaði ekki lengi en önnur sveit, Áttavillt var sett á laggirnar eftir áramótin 1997-98 og hóf um vorið að koma fram en þær Bryndís Sunna, Regína Ósk, Lóa Björk og Katrín Hildur mynduðu sönghluta sveitarinnar. Söngsystur voru þó enn starfandi samhliða Áttavillt og starfaði að minnsta kosti til 1999 en minna fór eðlilega fyrir sönghópnum eftir því sem hljómsveitinni óx ásmegin.
Þegar Söngsystur hættu og Áttavillt nokkru síðar fóru söngkonurnar hver í sína áttina en þær Regína Ósk og Bryndís Sunna hafa báðar skapað sér nafn í tónlistarheiminum, báðar sem söngkonur en sú síðarnefnda einnig sem lagahöfundur.














































