Það bar svo við í borginni

Það bar svo við í borginni
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Árnason)

Það bar svo við í borginni
einn bjartan páskadag
að Írlands knáa kappasveit
af krafti gekk í slag.
Með frelsisbál í brjóstinu
og byssurnar sér við hlið
þeir eins og stormur æddu fram
og unnu pósthúsið.

En síðan Bretar sóttu að
með sína vagna og hross
og heimsins bestu byssur til
að bombardera oss.
Og hrausta kappa Írlands á
í erg þeir skutu og gríð.
Og það varð ýmsum þungt um brjóst
í þeirri kúlnahríð.

Í heila viku varðist þar
hið vaska írska lið.
Og þá var fallin hetja hver
og hrunið pósthúsið.
Og enskir spúðu eiturgasi
um allar götur og torg
og kveiktu síðan eld
við eld í okkar höfuðborg.

Þeir brutu allt í mél og mask
og myrtu börnin smá
og drápu marga konukind
í kóngsins nafni þá.
Svo grófu þeir alla afsíðis
og enginn veit hvar það var.
En írskan frelsisanda samt
þeir ekki grófu þar.

[engar upplýsingar um lagið á plötum]