Það skrifað stendur
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Árnason)
Það skrifað stendur skýrt í Biblíunni
að skylt oss sé að virða náungann
og elska hann af hjartans dýpsta grunni
svo hann í staðinn læri að elska mann.
En gallinn er að þetta er bölvað blaður
og bull sem hvergi er hægt að finna stað.
Það elskar mann sko ekki nokkur maður
(nema ef að maður sjálfur skyldi gera það).
Í fyrri tíð ég forðaðist þann skolla
að fást við það sem Bretum þótti ljótt
þá dátar þeirra brytu alla bolla
í búrinu hjá mömmu eina nótt.
Og seinna þegar frelsisskrá var fengin
ég Fríríkinu allrar gæfu bað.
En samt ég veit það elskar mann sko enginn
(nema ef að maður sjálfur skyldi gera það).
Vort líf í þessum lægri millistéttum
er lítið skárra en það forðum var.
Vér stöndum ennþá eins og fé í réttum
og einskis bíðum nema slátrunar.
Því leyfi ég mér að segja enn og aftur
sem er þó fyrir löngu margsannað:
Það elskar mann sko ekki nokkur kjaftur
(nema ef að maður sjálfur skyldi gera það).
[engar upplýsingar um lagið á plötum]














































