Þegar þeir jörðuðu Jóngeir
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Árnason)
Viðlag
Þekkt hafði enginn annan eins
öðlingsmann og sjóarann þann
og því ríkti sorg og söknuður
þegar þeir jörðuðu Jóngeir.
Það hafði ekki sést þar í Firðinum fyrr
fjölmenni eins og þann haustfagra dag;
troðfull var kirkjan frá kór út í dyr
þegar þeir jörðuðu Jóngeir.
Vatnaði músum hið veikara kyn;
vel hafði hann kunnað að umgangast það;
smáfólkið kvaddi sinn kærasta vin
þegar þeir jörðuðu Jóngeir.
Allur var hljóðnaður umferðargnýr
úti á Strandgötu, niðri við höfn;
andvarinn dokaði hægur og hlýr
þegar þeir jörðuðu Jóngeir.
Rislágir dallar og reisuleg skip,
ryðgaðir kláfar og skínandi fley
lágu við bryggjur með saknaðarsvip
þegar þeir jörðuðu Jóngeir.
Uppfyrir Hamar í sindrandi sól,
síðan í garðinn við Vermannabraut
gekk fyrir kistunni Gísli minn pól
þegar þeir jörðuðu Jóngeir.
Sat þar einn grámávur gröfinni hjá,
glóandi sólin á bringuna skein,
upp síðan flaug hann og út yfir sjá
þegar þeir jörðuðu Jóngeir.
[m.a. á plötunni Þrjú á palli – Tekið í blökkina]














































