Tjörnin og heimshöfin
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Árnason)
Viðlag
Upp, upp, upp með segl!
Hátt í rá og reiða syngur.
Upp, upp, upp með segl!
Skær er himinhringur.
Glatt á bláa bæjartjörn
bjartir geislar sólar skína,
og þar stendur ungur sveinn
einn með skútu sína.
Burt frá landi sæll á svip
siglir hann í Drottins nafni.
Heimsins víðu úthöf öll
eru fyrir stafni.
Og nú rísa undur mörg
yfir tjarnarbakka lága:
undraborgir, undralönd
með undraturna háa.
Siglir hann í suðurátt
sælan byr í fangi Ránar,
síðan inn um sundið hjá
suðurodda Spánar.
Er hér landið Al-a-sír;
ekki finnst þar nokkur kirkja.
Best að setja á fulla ferð
framhjá veldi Tyrkja!
Útí móa iðka söng
önd og lóa, spói og kría.
Þetta land með þennan söng
það er Ítalía.
Austar liggur leiðin þröng
líkt og milli stafs og hurðar;
beggja vegna blasa við
bakkar Súesskurðar.
Þarna er land með þurran sand;
þar er mikil steinolía.
Þetta land með þennan sand
það er Arabía.
Lengra er siglt í austurátt
undan kátum vestanblænum
yfir gjörvallt Indlandshaf
í einum hvelli grænum.
Síðan kemur Kyrrahaf,
kóralríkið stóra og breiða,
þar sem fimir fiskimenn
flugfiskana veiða.
Hugfanginn hann horfir á
hvíta strönd og pálmaskóga;
tjarnarhólminn orðinn er
eyjan Sasa-móa.
Þarna leiðin þrengist enn;
það er bara alveg sama:
ferðin áfram gengur greitt
gegnum Pana-nama.
Yfir sjónum sér hann nú
svífa stóra albatrossa.
Þarna er líka af þangi nóg.
Þetta er Saragossa.
Loks er haldið heim á leið,
heima á leið til norðurslóða,
aftur heim til Ísalands,
Ísalandsins góða.
[m.a. á plötunni Þrjú á palli ásamt Sólskinskórnum – Ný barnaljóð Jónasar Árnasonar]














































