Vögguvísur Yggdrasils
(Lag / texti: Skálmöld / Snæbjörn Ragnarsson)
Bálið sem veldur bardögum
bjarma á kveldið kastar.
Surtur fer heldur hamförum,
hér sefur eldur fastar.
Þennan stað hýsir þjáningin,
þursarnir vísast kaldir.
Heimurinn frýs við himininn,
hér sefur ís um aldir.
Trónir á mergi tunnugler,
tindar úr bergi háir.
Sindri og Hergill halla sér,
hér sofa dvergar gráir.
Vafrandi enn um hrollkalt hraun,
hrakin sig glennir vofa.
Hitinn frá brennu huggar raun,
hér sofa menn í kofa.
Útgarða- brött er Loka leið,
liggur um vötn og sveitir,
hefur þar kött og Hugaskeið,
hér sofa jötnar feitir.
Hrynja og skjálfa gljúfragil,
grýta þig bjálfar magrir.
Heima þeir sjálfir halda til,
hér sofa álfar fagrir.
Valhallar blæs til vindurinn,
veinandi hvæs og brestir.
Heimdallur læsir hingað inn,
hér sofa æsir mestir.
Lífið víst þráir ljós og yl,
liggja þar smáir, kaldir,
horfa og bláir Heljar til,
hér sofa náir kaldir.
Forynja banar ferðalang,
feikn yfir hana rignir.
Hreykir sér svangur hátt á drang,
hér sofa vanir hyggnir.
[af plötunni Skálmöld – Vögguvísur Yggdrasils]














































