Rafael (1991-96)

Rafael

Rafael

Sveitaballahljómsveitin Rafael frá Húsavík spilaði lengstum á heimaslóðum á tíunda áratug liðinnar aldar og mun meðal annars hafa verið öflug á þorrablótamarkaðnum.

Rafael var stofnuð vorið 1991, í upphafi voru Jón Ingólfsson hljómborðsleikari, Örn Sigurðsson söngvari og saxófónleikari, Elvar Bragason gítarleikari og ónefndur bassaleikari í hljómsveitinni. Þórarinn Jónsson trommuleikari bættist í hópinn fljótlega en ekki er ljóst hvort annar trommuleikari hafi verið í sveitinni áður. Guðni Bragason tók við bassanum um haustið 1991 af upprunalega bassaleikaranum, sem hafði puttabrotnað.

Einhverjar frekari mannabreytingar urðu í sveitinni á næstu árum, snemma árs 1995 var hún fjögurra manna en þá voru í sveitinni Jón, Elvar og Þórarinn en Hjálmar Ingimarsson hafði þá tekið við bassanum. Líklega var meðlimur að nafni Þórir í sveitinni undir það síðasta en ekki liggja fyrir nánari upplýsingar um hann eða aðrar mannabreytingar á Rafael.

Sveitin var enn starfandi sumarið 1996 en svo virðist sem þá hafi fjarað endanlega undan henni og hún hætt.