Skóhljóð (1970-73 / 1990-99)

Skóhljóð 1999

Unglingahljómsveitin Skóhljóð starfaði í Hagaskóla um og upp úr 1970. Sveitin sigraði í hljómsveitakeppni í Húsafelli um verslunarmannahelgina 1972 og voru meðlimir hennar þá Eiríkur Thorsteinsson bassaleikari, Jónas Björnsson trommuleikari (Fresh, Cabaret o.fl.), Ásgrímur Guðmundsson gítarleikari og Ragnar Björnsson söngvari.

Þeir Skóhljóðsliðar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu keppnina í Húsafelli og sumarið eftir (1973) túraði sveitin með Roof tops um landið.

Sveitin lagði upp laupana fljótlega eftir það en var endurvakin löngu síðar, líklega um eða eftir 1990. Þá starfaði sveitin um nokkurra ára skeið eða að minnsta kosti til ársins 1999. Meðlimir sveitarinnar voru þá Eiríkur, Ragnar og Ásgrímur en einnig voru þá Þórhallur Andrésson trommuleikari og Albert Pálsson hljómborðsleikari í sveitinni.

Friðrik Karlsson gítarleikari (Mezzoforte o.fl.) lék um tíma með sveitinni en hann kom þó aldrei fram með henni opinberlega. Annar gítarleikari, Hróðmar Sigurbjörnsson (Melchior o.fl.) kom einnig við sögu hennar sem og Ingvar Haukur Sigurðsson.