Pandóra (1988-91)

Pandóra 1988

Pandóra 1988

Keflvíska hljómsveitin Pandóra var áberandi í tónlistarlífi Suðurnesja um 1990 og ól reyndar af sér hljómsveitina Deep Jimi and the Zep Creams sem reyndi fyrir sér á erlendum markaði.

Pandóra var stofnuð í Keflavík vorið 1988, fáeinum vikum áður en sveitin tók þátt í Músíktilraunum Tónabæjar og Bylgjunnar. Meðlimir sveitarinnar voru Björn Árnason bassa- og hljómborðsleikari, Sigurður Eyberg Jóhannesson söngvari, Þór Sigurðsson gítarleikari og Júlíus Guðmundsson trommuleikari. Sveitin reið ekki feitum hesti frá Músíktilraunakvöldinu og komst ekki áfram með sitt fremur þunga og gamaldags rokk.

Þeir Pandóru-liðar voru á menntaskólaaldri og stunduðu nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem þeir léku undir hjá söngvurum í undankeppni Söngkeppni framhaldsskólanna um haustið 1989 en þetta var í fyrsta skiptið sem keppnin var haldin. Reyndar voru þeir félagar uppteknir á fleiri vígstöðum en þeir stóðu þá í ströngu við uppfærslu Leikfélags Keflavíkur á söngleiknum Gretti. Og þar með var ekki allt upp talið því þetta sama haust gaf Pandóra út sína fyrstu plötu en hún fékk titilinn Saga. Allt efni plötunnar var á ensku.

Plötuna höfðu meðlimir sveitarinnar unnið í upptökuheimilinu Geimsteini um sumarið en Júlíus trommuleikari er sonur Rúnars Júlíussonar þáverandi eiganda og stofnanda fyrirtækisins sem einnig gaf plötuna út. Sveitin hafði þó lítinn tíma til að fylgja útgáfunni eftir enda vægast sagt uppteknir við fyrrgreind verkefni.

Magnús Þór Einarsson tók við sem bassaleikari 1990 en þá um vorið var Pandóra farin að vinna að söngleik eftir Júlíus en hann var síðan settur á svið hjá Leikfélagi Keflavíkur og kallaðist Er tilgangur? Meðlimir sveitarinnar tóku síðan fullan þátt í sýningunni sem leikarar og tónlistarmenn.

Pandóra 1990

Hljómsveitin Pandóra 1990

Reyndar er ótrúlegt að meðlimir Pandóru hafa yfirhöfuð getað stundað nám sitt en svo uppteknir voru þeir við tónlistarsköpun á þeim tíma. Bandið gaf út sína aðra plötu, Á íslensku, um haustið 1990 og eins og titillinn ber með sér voru lögin á íslensku. Platan hlaut sæmilega dóma í Morgunblaðinu en vakti kannski einna mesta athygli fyrir að Bubbi Morthens og Bjartmar Guðlaugsson áttu texta á henni.

Um svipað leyti kom síðan út plata með tónlistinni úr söngleiknum Er tilgangur? en hún vakti litla athygli utan Keflavíkur. Þar með hafði Pandóra sent frá sér þrjár plötur á einungis tveggja ára tímabili.

Minna fór nú fyrir Pandóru og þeir félagar fóru nú að spila rokktónlist sjöunda og áttunda áratugarins, næsta vor (1991) komu þeir í fyrsta skipti fram undir nafninu Deep Jimi and the Zep Creams og við það tækifæri lögðu þeir Pandóru-nafninu.

Nýja sveitin reri á önnur mið og leitaði fyrir sér með þokkalegum árangri í Bandaríkjunum en það er saga annarrar hljómsveitar.

Lag með Pandóru kom út á safnplötunni 16 ára, sem Geimsteinn gaf út 1992.

Efni á plötum