Söngfélag Vestmannaeyja (1894-1904)

Söngfélag Vestmannaeyja var einn fyrsti kórinn sem starfaði í Vestmannaeyjum en þá var þar fyrir kirkjukór Landakirkju sem Sigfús Árnason stjórnandi söngfélagsins (og organisti kirkjunnar) stjórnaði reyndar einnig en sá kór hafði verið starfandi í um fimmtán ár.

Söngfélagið var stofnað haustið 1894 af Sigfúsi og voru um tuttugu manns sem skipuðu kórinn í upphafi en um var að ræða karlakór sem var að nokkru leyti byggður á meðlimum kirkjukórsins. Segja má að söngstarfið hafi verið óformlegt í upphafi en snemma árs 1896 var kórinn stofnaður formlega og m.a. var þá tilgreint í lögum hans að tilgangurinn væri að efla og auka sönglistina í Vestmannaeyjum sem hann gerði vissulega því kórinn hóf að halda tónleika strax árið 1895 og hélt oftsinnis tónleika meðan hann starfaði og þótti mikil prýði að söng hans en Sigfús stjórnandi lék stundum undir söngnum á fiðlu. Söngfélagið mun að jafnaði hafa haldið tvenna eða þrenna tónleika á ári og hélt jafnvel fríar söngskemmtanir fyrir börn og fátæklinga. Kórinn var um tíma á hrakhólum með æfingahúsnæði en fékk yfirleitt inni í Góðtemplarahúsinu og síðar þinghúsi þeirra Vestmannaeyinga þegar þau hús voru ekki upptekin vegna annarra funda eða samkoma.

Söngfélag Vestmannaeyja starfaði allt til 1904 og þegar mest var í kórnum voru meðlimir hans tuttugu og fjórir en heldur fór að fækka í hópnum þegar komið var fram á nýja öld, þegar Sigfús flutti frá Eyjum haustið 1904 hætti kórinn störfum en um það leyti hafði verið uppi umræða um að gera hann að blönduðum kór.