Afmælisbörn 12. júní 2023

Jakob Smári Magnússon

Þrjú afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:

Jakob Smári Magnússon bassaleikari er fimmtíu og níu ára gamall á þessum degi. Jakob hóf sinn feril með hljómsveitum eins og Tappa tíkarass og Das Kapital en síðar lék hann með Síðan skein sól / SSSól, Grafík, Todmobile og Pláhnetunni svo einungis fáeinar af þeim þekktustu séu upptaldar. Jakob hefur ennfremur leikið á plötum þekktustu tónlistarmanna landsins og er t.d. oftar en ekki kallaður til þegar Bubbi Morthens gefur út plötu. Jakob hefur gefið út tvær bassajólaplötur sem vakið hafa athygli.

Hörpuleikarinn Elísabet Waage er sextíu og þriggja ára í dag. Elísabet nam píanó- og hörpuleik hér heima og lauk svo einleikara- og hörpukennaraprófi í Hollandi, hún hefur jafnframt starfað hér heima og í Hollandi og leikið m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Caput hópnum, Kammersveit Reykjavíkur og fleiri sveitum auk þess að fást við kennslu. Þá er hörpuleik hennar að finna á fjölmörgum útgefnum plötum.

Fróði Finnsson (f. 1975) hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést langt fyrir aldur fram árið 1994 úr krabbameini einungis nítján ára gamall. Á sínum stutta ferli lék Fróði á gítar með ógrynni hljómsveita en þeirra á meðal eru Sororicide (Infusoria), Clostrophobia under my foreskin, Pulsan, Texas Jesus, SSSpan, Torture og Xerox.

Vissir þú að tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson er frá Þorlákshöfn?