
Söngfélagar Einn og átta
Söngfélagar Einn og átta var tvöfaldur kvartett karla úr Mosfellsbænum sem kom töluvert fram opinberlega í kringum 1990 og gaf út eina plötu með íslenskum og erlendum lögum.
Þessi tvöfaldi kvartett mun hafa verið stofnaður sumarið 1987 gagngert til að fara til Sovétríkjanna í söngferðalag, þar sungu þeir félagar á nokkrum tónleikum sem og á Íslandskynningu í Úkraínu. Þegar heim var til Íslands var komið þótti gráupplagt að halda samstarfinu áfram og auglýstu þeir Einn og átta félagar í smáauglýsingum til að koma sér á framfæri og í kjölfarið komu þeir töluvert fram á skemmtunum, árshátíðum og þess konar samkomum. Þá komu þeir einnig nokkuð fram á sjálfstæðum tónleikum á næstu árum og fóru m.a. í söngferðalag um norðanvert landið.
Meðlimir Söngfélaga Eins og átta voru þeir Guðmundur Ómar Óskarson, Ármann Óskar Sigurðsson, Böðvar Guðmundsson, Björn Ó. Björgvinsson, Viktor A. Guðlaugsson, Hreinn Úlfarsson, Hans G. Magnússon, Tómas Lárusson og Helgi R. Einarsson sem jafnframt var stjórnandi og sá níundi í hópnum eins og nafnið gaf til kynna. Áslaug Bergsteinsdóttir kom fram með hópnum sem undirleikari.
Söngfélagar Einn og átta gaf út plötu haustið 1991 sem bar nafn hópsins en á honum voru sautján lög, þeir Jónas Ingimundarson píanóleikari og Reynir Jónasson harmonikkuleikari voru þeim til aðstoðar við undirleik. Platan hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu en hún hafði verið hljóðrituð af Halldóri Víkingssyni í Hlégarði í Mosfellsbæ.
Söngfélagar Einn og átta störfuðu ekki lengi eftir útgáfu plötunnar og hættu líklega störfum árið 1992.














































