
Þór Breiðfjörð
Sex afmælisbörn koma við sögu í dag:
Ágústa (Aðalheiður) Ágústsdóttir sópransöngkona frá Þingeyri er áttatíu og sex ára gömul í dag. Hún nam söng og fiðluleik hér heima og í Þýskalandi, hefur haldið tónleika á Íslandi og erlendis en hefur starfað mestmegnis hér heima, hún stjórnaði m.a. Samkór Ísafjarðarsýslu á sínum tíma. Eftir Ágústu liggur ein plata, Íslensk og norræn sönglög, sem kom út árið 1990.
Gítarleikarinn Sævar Árnason er sjötíu og fimm ára gamall í dag en fáir hafa leikið með jafn mörgum hljómsveitum og hann. Hér er sýnishorn af þeim aragrúa sveita; Pops, Ástarkveðja, Stofnþel, Ópus, Acropolis, Á rás 1, Reykjavík, Venus, Ultra, Experiment, Babylon og Action.
Sigríður Ella Magnúsdóttir söngkona og söngkennari er sjötíu og níu ára gömul í dag. Hún nam sönglistina hér heima og í Austurríki og hefur starfað víðs vegar um lönd, sungið sem einsöngvari bæði með kórum og ein og sér, sungið óperuhlutverk, gefið út nokkrar sólóplötur og sungið auk þess á fjölda platna annarra listamanna.
Rapparinn Kött grá pjé eða bara Atli Sigþórsson frá Akureyri sem sló í gegn á sínum tíma með sumarsmellinn Aheybaró á stórafmæli en hann er fertugur í dag. Hann hefur einnig sent frá sér lög í samstarfi við aðra rappara en hefur síðustu árin einbeitt sér að textaskrifum og liggja eftir hann nokkrar útgefnar bækur.
Helgi Júlíusson (1918-94) úrsmiður og söngvari á Akranesi átti einnig þennan afmælisdag en hann var einn þeirra söngvara sem skipuðu sönghópinn Skagakvartettinn á árunum 1969-94. Skagakvartettinn gaf út plötu 1976 sem naut mikilla vinsælda á sínum tíma og muna margir lögum eins og Umbarassa, Skagamenn skoruðu mörkin og Ríðum ríðum, í flutningi kvartettsins. Helgi söng einnig með karlakórnum Svönum.
Þór Breiðfjörð Kristinsson söngvari og leikari fagnar í dag fimmtíu og tveggja ára afmæli sínu. Þór hefur sungið með hljómsveitum og sönghópum eins og Sölku, Hljómsveit Bjarna Þórs Sigurðssonar, Flugunni, Strandamönnum, Hátveiro, Hressu húsflugunni og Svifi en hann hefur einnig gefið út nokkrar sólóplötur á ferli sínum auk þess að syngja á plötum annarra listamanna.
Vissir þú að organistarnir Hilmar Örn Agnarsson og Hörður Bragason voru virkir í pönk- og nýbylgjusenunni um 1980?














































