Söngfélög Stokkseyrar (1876-1912)

Söngfélög eða kórar voru starfandi á Stokkseyri um árabil undir lok 19. aldar og fram á þá tuttugustu en mikil tónlistarætt er tengd staðnum og má nefna að fjórir bræður gegndu starfi organista og söngstjóra við kirkjuna á Stokkseyri. Söngfélag þessi voru að miklu leyti tengd söngstarfi kirkjunnar og voru eins konar undanfarar kirkjukórs Stokkseyrarkirkju.

Bergur Sturlaugsson (1682 – um 1765) var má segja forfaðir þessarar tónlistarættar, hann var forsöngvari við kirkjuna á Stokkseyri og kunnur söngmaður, og á meðal afkomenda hans var Páll Jónsson hreppstjóri sem átti tíu börn en eitt þeirra var Ísólfur Pálsson tónskáld, faðir Páls Ísólfssonar tónskálds sem var svo faðir Þuríðar Pálsdóttur svo fáein nöfn séu nefnd úr þessari miklu tónlistarætt – og þau eru miklu fleiri.

Þegar núverandi kirkjubygging á Stokkseyri (sem þá var með stærri kirkjum landsins) var reist árið 1886 var Bjarni Pálsson organisti þar (sonur Páls Jónssonar) en orgel hafði þá verið til við sóknina í um áratug og hafði hann stjórnað einhvers konar söngfélagi eða kór um árabil sem líklega var að einhverju leyti tengdur kirkjustarfinu. Bjarni lést 1887 og tók Jón Pálsson bróðir hans við organista hlutverkinu og söngstjórninni litlu síðar en hann var einnig stjórnandi öflugs söngfélags á Eyrarbakka um það leyti. Líklega var það ástæðan fyrir því að þriðji bróðirinn Ísólfur Pálsson tók við söngfélaginu og hlutverki organistans við kirkjuna árið 1893 og gegndi þeim hlutverkum allt þar til hann flutti til Reykjavíkur árið 1910 eða 12. Í tíð Ísólfs (sem var þekkt tónskáld) var hann með kirkjukór og einnig blandaðan kór sem samsettur var úr kirkjukórnum og öðru söngfólki og hélt það söngfélag stundum tónleika á Stokkseyri, þá stjórnaði hann einnig karlakvartett og hugsanlega einnig karlakór. Þess má geta að kirkjukór Ísólfs frumflutti þekktasta lag hans, Í birkilaut (Draumur hjarðsveinsins) í messu en þá var það reyndar með sálmatexta sem síðan vék fyrir texta Steingríms Thorsteinssonar. Fjórði bróðirinn  (ónafngreindur) mun einnig hafa verið organisti við kirkjuna en ekki liggur fyrir hvenær.

Fleiri aðilar gætu hafa komið að söngstjórnun söngfélaga á Stokkseyri.