
Grétar Örvarsson
Níu afmælisbörn eru á lista Glatkistunnar í dag:
Söngvarinn og hljómborðsleikarinn Grétar (Þorgeir) Örvarsson er sextíu og fjögurra ára gamall í dag. Grétar sló í gegn með hljómsveit sinni Stjórninni þegar hann og Sigga Beinteins sungu framlag Íslands í Eurovision keppninni 1990. Í kjölfarið gaf Stjórnin út nokkrar plötur sem allar nutu vinsælda en einnig hefur Grétar starfað með og starfrækt hljómsveitir eins og BSG, Hljómsveit Grétars Örvarssonar, Alvöruna og Dans á rósum.
Julian (Michael) Hewlett tónskáld, kórstjórnandi og píanóleikari er fimmtíu og sex ára gamall í dag. Hann hefur starfað á Íslandi sem tónlistarkennari og stjórnandi kóra síðan seint á níunda áratug liðinnar aldar, fyrst á Skagaströnd og Egilsstöðum áður en hann fluttist á höfuðborgarsvæðið. Meðal kóra sem hann hefur stjórnað eru Samkór Kópavogs, Kvennakór Kópavogs, Boudoir, Kór Kópavogskirkju og Englakórinn.
Tónlistarmaðurinn fjölhæfi Hrafn Thoroddsen á stórafmæli en hann er fimmtugur í dag. Hann hefur sungið og leikið á hljómborð, orgel gítar og önnur hljóðfæri í ýmsum þekktum hljómsveitum og má þar nefna sveitir eins og Ensími, Jet Black Joe, Dr. Spock, Egó og SSSól.
Siglfirðingurinn Helgi Svavar Helgason trommuleikari er fjörutíu og fimm ára í dag. Helgi hefur komið víða við á sínum ferli og leikið með hljómsveitum af ýmsum stærðum og gerðum, þekktastar þeirra eru án efa Senuþjófarnir, Memfísmafían og Flís en einnig má nefna Rodent, Funkmaster 2000, Grams, Stórsveit Samúels J. Samúelssonar, Klezmersveitina Schpilkas, Endurskoðendurna og Benni Hemm Hemm.

Steinn Stefánsson
Magnús Guðmundsson, oftast kenndur við hljómsveitina Þey, er sextíu og þriggja ára gamall á þessum degi. Magnús var söngvari Þeysara frá upphafi og var einnig í ýmsum undanförum þeirrar sveitar s.s. Fellibylnum Þórarni, Hattimas og Frostrósum, en hann hefur einnig starfað með hljómsveitunum Plágunni, Rauð vík, Iceland og Með nöktum.
Anna (Sigríður) Þorvaldsdóttir tónskáld er fjörutíu og sex ára gömul í dag. Hún kemur upphaflega frá Borgarnesi, lærði á selló og síðan tónsmíðar við LHÍ og í Bandaríkjunum og hefur sent frá sér tónverk og plötur (s.s. Dreymi, Rhizoma, Aerial og In the light of air) sem hafa unnið til verðlauna á alþjóðlegum vettvangi, hún hefur t.a.m. unnið tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs og fjölda verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum.
Steinn Stefánsson kórstjórnandi og tónskáld á Seyðisfirði átti þennan afmælisdag en hann fæddist árið 1908. Steinn sem kom reyndar upphaflega úr Austur-Skaftafellssýslu var drifkraftur í tónlistarlífi Seyðfirðunga lengi vel, stjórnaði þar m.a. samkórnum Bjarma, kirkjukórnum og fleiri kórum á staðnum en hann var einnig tónskáld og voru tvívegis gefin út sönglagahefti með lögum hans. Steinn lést árið 1991.
Ólafur Már Ásgeirsson píanóleikari er sjötíu og átta ára gamall í dag. Ólafur Már var töluvert áberandi í þeirri rokk- og bítlavakningu sem hér varð um og upp úr 1960 og lék hann þá með ótal hljómsveitum (og síðar), hér má nefna Ó.M. og Agnesi, Stuðgæja, Stuðbandið og Garðar, Stjörnukvintett og Sóló.
Að síðustu er hér nefndur klarinettu- og saxófónleikarinn Andrés (Sverrir) Ingólfsson. Andrés fæddist 1935, hann lék með mörgum af helstu hljómsveitum landsins s.s. KK-sextett, Hljómsveit Ingimars Eydal, Lúdó sextett, Sextett Ólafs Gauks, Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar, Orion kvartettnum og Icelandic All star auk þess að starfrækja eigin sveit um tíma. Hann lék ennfremur inn á fjölda hljómplatna á ferli sínum en hann lést aðeins 43 ára gamall árið 1979.
Vissir þú að árið 1996 var starfandi hljómsveit í Stykkishólmi undir nafninu Mínus?














































