Söngsveit Hlíðarbæjar (1975-90)

Söngsveit Hlíðarbæjar undir stjórn Sigurðar Demetz

Blandaður kór undir nafninu Söngsveit Hlíðarbæjar starfaði í Glæsibæjarhreppi (nú Hörgárbyggð) við vestanverðan Eyjafjörð um fimmtán ára skeið á seinni hluta síðustu aldar.

Söngsveit Hlíðarbæjar var stofnuð haustið 1975 af áhugafólki um söng og félagslíf í Glæsibæjarhreppi en um var að ræða blandaðan kór sem kenndi sig við félagsheimilið Hlíðarbæ sem er staðsett fáeina kílómetra norðan við Akureyri. Sigurður Demetz söngkennari á Akureyri var stjórnandi kórsins í upphafi og stjórnaði honum fyrstu fjögur árin en Oliver Kentish tók þá við söngstjórninni.

Starfsemi Söngsveitar Hlíðarbæjar var alla tíð í nokkuð föstum skorðum, fyrst um sinn var kórinn alfarið skipaður fólki úr Glæsibæjarhreppi en fáeinum árum síðar höfðu bæst í þann hóp brottfluttir Glæsibæingar sem þá bjuggu á Akureyri, og eftir því sem árin liðu bættist við söngfólk úr nágrannahreppunum, yfirleitt hafði kórinn á að skipa á milli þrjátíu og fjörutíu manns.

Kórinn hélt árlega vortónleika í Hlíðarbæ og stundum fleiri en eina en einnig fór hann í styttri söngferðir um nágrannasveitirnar s.s. í Hrísey, Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu og víðar, þar sem sönglög frá ýmsum tímum og úr ýmsum áttum voru á söngskránni. Þá kom fyrir að einsöngvarar tóku lagið með kórnum og hér má nefna Pétur Þórarinsson, Jósavin Arason, Þór Sigurðsson og Óskar Pétursson en þegar kórinn var hvað öflugastur var einnig starfandi kvartett innan hans. Söngsveitin hlaut tvívegis styrk úr menningarsjóði KEA og í síðara skiptið (1984) vegna fyrirhugaðrar útgáfumála, svo virðist sem styrkurinn hafi þó aldrei verið nýttur til slíks.

Oliver Kentish var stjórnandi Söngsveitar Hlíðarbæjar þar til um miðjan níunda áratuginn en þá tók Ragnar Jónsson við og hélt utan um söngstjórnina þar til Hjörtur Steinbergsson tók við árið 1988 en Guðlaugur Viktorsson leysti hann svo af hólmi haustið 1989, kórinn starfaði undir stjórn Guðlaugs veturinn á eftir en um vorið 1990 var kórinn lagður niður og nýr blandaður kór – Mánakórinn stofnaður upp úr honum haustið eftir, sá kór hafði að geyma söngfólk úr byggðunum norðan Akureyrar.