
Jón Gústafsson
Þrír tónlistarmenn koma við sögu í afmælisdagbók Glatkistunnar að þessu sinni:
Jón Gústafsson fyrrum tónlistar- og fjölmiðlamaður er sextugur og fagnar því stórafmæli. Jón var þekktastur á níunda áratug síðust aldar sem dagskrárgerðarmaður í útvarpi og sjónvarpi en hann sá um tónlistarþætti eins og Rokkarnir geta ekki þagnað og Popphólfið, hann lék einnig á hljómborð, trommur og fleiri hljóðfæri í hljómsveitum eins og Gaulverjum, Afris og Sonus futurae auk þess að gefa út sólóskífu.
Arnór Dan Arnarson söngvari Agent fresco fagnar einnig afmæli í dag en hann er þrjátíu og átta ára gamall. Agent fresco er auðvitað í fremstu röð en Arnór hefur einnig starfað með tónlistarmönnum eins og Ólafi Arnalds, Björgvini Halldórssyni og Retro Stefson svo dæmi séu tekin.
Þá á Ingi Gunnar Jóhannsson sextíu og fimm ára afmæli í dag. Ingi Gunnar var auðvitað í Hálfu í hvoru og Islandicu en hefur einnig starfað með Vísnavinum, Texastríóinu og Vox, og poppað reglulega upp í undankeppnum Eurovision og Landslaginu einnig þegar það var og hét. Ingi Gunnar hefur sent frá sér eina sólóplötu, Undir fjögur augu (1992).
Vissir þú að Sigfús Einarsson tónskáld var fyrsti Íslendingurinn til að gera tónlist að ævistarfi?














































