H.B. kvintettinn var hljómsveit sem starfaði á sjötta áratug síðustu aldar en hún var í raun sama sveit og bar nafnið SOS (S.O.S.) en hafði þurft að breyta nafni sínu að beiðni Ríkisútvarpsins.
Sveitin var stofnuð 1953 og starfaði til ársins 1956 að minnsta kosti en margt er óljóst í sögu þessarar sveitar. Fyrir liggur að hún lék mikið í Selfossbíói tvö fyrstu árin og þá var hún einnig lengi í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði, Leikhúskjallaranum og víðar. Svo virðist sem þeir Haukur Sveinbjarnarson harmonikkuleikari og Sigmundur Lúðvíksson gítarleikari hafi verið starfandi með sveitinni mest alla tíð og hér er giskað á að skammstöfunin í nafni sveitarinnar sé rakin til þeirra tveggja, Hauks og Bóbó eins og Sigmundur var kallaður. Óskað er eftir upplýsingum um aðra meðlimi sveitarinnar en ýmsir söngvarar munu hafa sungið með henni s.s. Haukur Morthens, Ólafur Briem og fleiri.














































