Afmælisbörn 4. ágúst 2023

Svanhildur Leósdóttir

Að þessu sinni eru fjögur afmælisbörn á skrá Glatkistunnar.

Jófríður Ákadóttir er tuttugu og níu ára gömul í dag en hún hefur komið ótrúlega víða við í tónlistinni þótt hún sé ekki eldri en þetta. Hún vakti fyrst athygli með Pascal Pinon í Músíktilraunum og síðan aftur með Samaris sem sigraði reyndar keppnina 2011 en báðar sveitirnar hafa sent frá sér nokkrar plötur. Þá á Jófríður einnig að baki sólóferil undir nafninu JFDR og hefur gefið út plötur undir því nafni.

Tvíburasystir Jófríðar, Ásthildur Ákadóttir hljómborðs- og píanóleikari er eðli málsins samkvæmt einnig tuttugu og níu ára í dag en hún starfar einnig í hljómsveitinni Pascal pinon sem í dag er dúett. Ásthildur hefur starfað með fjöldanum öllum af öðru tónlistarfólki og þar á meðal má nefna dúettinn Hungry dragon sem sigraði tónlistarkeppnina Kammer 6: tónlistarhátíð unga fólksins árið 2014.

Þá er hér einnig nefndur trommuleikarinn Rafn Haraldsson (f. 1947) sem lék með mörgum þekktum og óþekktum hljómsveitum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, hér eru nefndar sveitir eins og Toxic, 5-pence, Flowers, Grástakkar, Náttúra, Persona, Haukar og Frugg. Rafn lést af slysförum 1981 aðeins þrjátíu og fjögurra ára gmall.

Og að síðustu er hér í afmælisbörnum dagsins nefnd Akureyringurinn Svanhildur Sumarrós Leósdóttir (1940-2009) sem m.a. starfrækti hljómsveitir í eigin nafni sem léku víða um norðanvert landið, hún var virk í félagsstarfi harmonikkuunnenda fyrir norðan og söngfélögum og kórastarfi einnig og gaf út tvær plötur sem að einhverju leyti höfðu að geyma frumsamda tónlist.

Vissir þú að eitt sinn starfaði rappsveit undir nafninu Hughvarfahrif?