Hafsteinn Guðmundsson (1947-)

Hafsteinn Guðmundsson

Fagottleikarann Hafstein Guðmundsson má telja til brautryðjenda á því hljóðfæri hér á landi en hann var lengi vel fyrsti fagottleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og reyndar einn fyrsti brautskráði fagottleikarinn hérlendis en hann nam af Sigurði Breiðfjörð Markússyni sem telst þeirra fyrstur hér á landi.

Hafsteinn Guðmundsson er Reykvíkingur, fæddur vorið 1947 og hóf ungur tónlistarnám, fyrst á píanó níu ára gamall og svo á fagott 14 ára. Hann er reyndar af tónlistarfólki kominn því faðir hans var Guðmundur Guðjónsson óperusöngvari, og þess má geta að sonur Hafsteins, Guðmundur Hafsteinsson er þekktur trompetleikari.

Hafsteinn var fyrstur til að nema fagottleik við Tónlistarskólann í Reykjavík, undir handleiðslu Sigurðar Markússonar og lauk einleikaraprófi á hljóðfærið frá skólanum, vorið 1968 – hann hafði þá vorið á undan lokið tónmenntakennaraprófi og átti síðan eftir að starfa sem tónlistarkennari samhliða öðrum tónlistarstörfum. Á yngri árum sínum hafði hann verið í lúðrasveitinni Svaninum en hann leikur einnig á önnur blásturshljóðfæri s.s. saxófón og flautu, þá hafði hann einnig leikið með hljómsveit tónlistarskólans bæði á tónleikum og í útvarpi og sjónvarpi.

Að loknu námi hér heima fór Hafsteinn til Bandaríkjanna í framhaldsnám, nam þá m.a. hjá Arthur Weisberg í einkakennslu og lauk þar mastersprófi árið 1970 en kom heim til Íslands að því loknu og hóf að starfa hér á landi.

Hafsteinn Guðmundsson

Hafsteinn hafði leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands á námsárum sínum hér heima frá 1964 en frá 1971 hlaut hann fastráðningu við sveitina og varð síðan fyrsti fagottleikari hennar frá árinu 1987, með sveitinni hefur hann margoft leikið einleik á tónleikum og einnig inn á plötur með henni. Hafsteinn var jafnframt einn af stofnendum Blásarakvintetts Reykjavíkur og hefur farið víða um heim með þeirri sveit og gefið út fjölmargar plötur, hann hefur einnig starfað með ýmsum mis langlífum tónlistarhópum og kammer- og blásarasveitum eins og Íslenska blásarakvintettnum, Kammermúsíkklúbbnum, Íslenzkum kammersólóistum, Kammersveit Reykjavíkur, hljómsveit Íslensku óperunnar, Íslensku hljómsveitinni, Kammersveit Langholtskirkju, Jazzmiðlum, hljómsveit Þjóðleikhússins, Big-bandi Björns R. Einarssonar og fleiri sveitum, og leikið inn á plötur með sumum þeirra. Hann hefur einnig leikið á plötum með léttari tónlist, þá fyrstu árið 1968 þegar hann lék á smáskífu Sigrúnar Harðardóttur og í framhaldinu má nefna plötur með Árna Johnsen, Kötlu Maríu, Kristni Sigmundssyni, Ólafi Þórðarsyni, Pálma Gunnarssyni, Herdísi Hallvarðsdóttur, Mannakornum, Islandicu o.fl. Þá eru ótaldar allar þær tónlistarlegu uppákomur sem hann hefur leikið einn eða í félagi við ýmsa hljóðfæraleikara víða um land.

Hafsteinn hafði að mestu dregið sig í hlé frá tónlistarstörfum við upphaf annars áratugar nýrrar aldar en sinnti reyndar tónlistarkennslu nokkuð lengur en hann hefur kennt við ýmsa tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur einnig verið framarlega í félagsstörfum tónlistarmanna, verið í stjórn félaga eins og Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH), Félags íslenskra tónlistarmanna (FÍT) og starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands svo dæmi séu nefnd.