
Gylfi ásamt Rúnari Júlíussyni, Engilbert Jensen og Gunnari Þórðarsyni
Gylfi Ægisson fór mikinn í útgáfu ævintýra í söngleikjaformi frá því snemma á níunda áratug síðustu aldar og fram á þessa öld en alls komu út átta plötur sem setja mætti í þann flokk.
Söngævintýrum Gylfa mætti skipta í tvennt, annars vegar þau sem hann vann í samstarfi við Rúnar Júlíusson í Geimsteini og nutu mikilla vinsælda á fyrri hluta níunda áratugarins þar sem hann fléttaði saman eins konar leikrit við þekkt ævintýri og við eigin lög, hins vegar frumsamin ævintýri um Valla sem hann vann sjálfur og gaf út undir eigin merkjum.
Fjórar plötur komu út undir fyrri flokknum, Söngævintýrið Rauðhetta & Hans og Gréta (1980), Eldfærin (1981), Í ævintýraleik: Tumi þumall & Jói og baunagrasið (1982) og Ævintýrin Stígvélaði kötturinn & Kiðlingarnir sjö (1983) en í þeim komu fjölmargir þekktir (og síðar þekktir) tónlistar- og fjölmiðlamenn á borð við Hermann Gunnarsson, Pál Óskar Hjálmtýsson, Pálínu Vagnsdóttur og Þórhall (Ladda) Sigurðsson við sögu, þær plötur voru unnar á þeim tíma sem Gylfi og Geimsteinsfólkið héldu úti Áhöfninni á Halastjörnunni. Hinn flokkinn fylla ævintýrin um Valla en fimm plötur komu út með honum, Valli og snæálfarnir (sem gefin var út í fjórum mismunandi litum á vínyl), Valli og haförninn, Valli og töfrakúlan, Valli og sjóræningjarnir og Valli og myrkrahöfðinginn en þar annaðist Gylfi sjálfur allan flutning. Ævintýrin um Valla nutu ekki eins mikillar hylli en þær komu út á árunum 1986 til 2008.














































