
Hafrót 1974
Það finnast vart lífseigari ballsveitir en hljómsveitin Hafrót sem mun hafa starfað nokkuð samfleytt í yfir fjörutíu ár, reyndar með miklum mannabreytingum – það miklum reyndar að upprunalegu meðlimir sveitarinnar höfðu fyrir löngu síðan yfirgefið hana þegar hún hætti störfum. Reyndar var það svo við upplýsingaöflun þessarar umfjöllunar að efi kom upp að um sömu sveit væri að ræða allan tíma en þær efasemdir hurfu þegar upp kom heimild um að sveitin fagnaði þrjátíu ára afmæli sínu.
Saga Hafrótar nær allt aftur til haustsins 1973 eftir því sem næst verður komist, sveitin birtist á síðum dagblaðanna í upphafi árs 1974 þegar hún lék fyrir dansi á skemmtistaðnum Röðli en Hafrót var lengi húshljómsveit þar. Reyndar komst sveitin einnig á fréttasíðurnar þegar hún tók upp tveggja laga plötu í nýopnuðu hljóðveri Hjartar Blöndal – HB stúdíó um svipað leyti. Platan kom út fljótlega og sjálfsagt vilja meðlimir Hafrótar gleyma henni því hún fékk vægast sagt slæmar viðtökur plötugagnrýnenda dagsblaðanna, að vísu voru það hljómgæði plötunnar sem fóru mest fyrir brjóstið hjá poppskríbentunum en lögin þóttu heldur ekki ýkja merkileg.
Engar staðfestar upplýsingar er að finna hverjir skipuðu Hafrót í upphafi en á einhverjum tímapunkti meðan hún var húshljómsveit á Röðli voru meðlimir sveitarinnar þeir Einar Dagur Einarsson hljómborðsleikari, Einar Már [?] gítarleikari, Gulli [Guðlaugur Pálsson?] trommuleikari og Ari Brimar Gústafsson bassaleikari, ekki liggur fyrir hvenær þetta var en vitað er að Valgeir Skagfjörð var um tíma hljómborðsleikari sveitarinnar og að hann hætti í sveitinni síðsumars 1975. Hún hætti störfum um tíma og birtist aftur haustið 1976 og er hér giskað á að ofangreind skipan sveitarinnar eigi við þá.

Hafrót á Röðli
Hafrót var sem fyrr segir húshljómsveit í Röðli til að byrja með en lék síðan einnig á stöðum eins og Klúbbnum og Þórscafe auk þess að leika á dansleikjum úti á landi. Líklega spilaði sveitin á þessu tímabili flest kvöld vikunnar nokkuð samfleytt fram yfir áramótin 1976-77 en þá virðist hafa tekið við um eins og hálfs árs hlé.
Þegar Hafrót birtist á nýjan leik um sumarið 1979 lék hún töluvert í Snekkjunni í Hafnarfirði en síðan einnig á skemmtistöðum eins og Klúbbnum, Sigtúni og Glæsibæ, ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveitina á þeim tíma en hluti hennar (eða jafnvel öll sveitin) starfrækti einnig hljómsveitina Dóminik sem einnig lék mikið á dansstöðum höfuðborgarinnar, einkum í Hafnarfirði.
Einhver endurnýjun átti sér stað innan sveitarinnar og um haustið 1982 varð nokkur stefnubreyting hjá þeim Hafrótarmönnum um skeið að leggja áherslu á árshátíðir, þorrablót og þess konar skemmtanir um veturinn, þá voru meðlimir hennar Guðlaugur Pálsson trommuleikari, Albert Pálsson hljómborðsleikari Elvar Gottskálksson bassaleikari og Birgir Sævar Jóhannsson gítarleikari en þeir skiptust líklega á um að syngja. Í kjölfarið varð sveitin minna áberandi á skemmtistaðadálkum dagblaðanna enda var árshátíðarbransinn allt annars eðlis og sveitin gat verið að spila í einkasamkvæmum án þess að það kæmi fram á síðum blaða.

Hafrót ásamt Mjöll Hólm
Enn urðu einhverjar breytingar á skipan Hafrótar haustið 1983 en ekki er ljóst hverjar þær breytingar voru, um það leyti færðist áherslan aftur yfir á skemmtistaði höfuðborgarsvæðisins og lék sveitin reglulega bæði í Þórscafe og Glæsibæ næstu árin en var einnig að sinna spilamennsku á landsbyggðinni. Hafrót virðist hafa verið um nokkurra mánaða skeið í pásu um miðjan níunda áratuginn en birtist á nýjan leik síðla árs 1986 með Berglindi Björk Jónasdóttur sem söngkonu og hún söng með sveitinni um tíma sem þá var aðallega í Glæsibæ með tónlist frá sjötta og sjöunda áratugnum, auk gömlu dansanna. Mjöll Hólm átti einnig eftir að syngja með sveitinni um tveggja ára skeið í kringum 1990 en ekki er að finna neinar aðrar upplýsingar um manna- og hljóðfæraskipan sveitarinnar frá þeim tíma.
Svo virðist sem Hafrót hafi enn og aftur legið í dvala um tíma á tíunda áratugnum, um vorið 1994 virðist sem sveitin hafi birst á nýjan leik og þá líklega með breyttri liðsskipan frá því sem áður var, Gunnar [?] hljómborðsleikari [?], Sigurður Hafsteinsson gítarleikari og Rafn Erlendsson trommuleikari skipuðu þá sveitina sem lék á þeim tíma mikið á Suðurnesjunum, einkum á Ránni í Keflavík en einnig á höfuðborgarsvæðinu s.s. á Næturgalanum, Kaffi Reykjavík, Fógetanum og víðar. Þeir Rafn og Sigurður áttu eftir að mynda kjarna sveitarinnar um skeið og frá og með þeim tíma var Hafrót líklega tríó. Upp úr aldamótum 2000 kom Pétur Hreinsson hljómborðsleikari inn í sveitina með þeim félögum og þannig skipuð hélt Hafrót upp á 30 ára afmæli sitt á Rauða ljóninu í mars 2004 sem styrkir þá kenningu um að hér sé á ferðinni sama sveitin og byrjaði sem húshljómsveit á Röðli 1974.

Hafrót 1982
Sumarið 2007 birtist sveitin enn og aftur eftir stutt hlé, þá hafði Árni Jörgensen leyst Sigurð af hólmi en hann er Siglfirðingur að uppruna rétt eins og Rafn trommuleikari, Pétur kemur hins vegar upphaflega frá Akureyri þannig að á þeim tímapunkti var um að ræða hljómsveit sem átti lítt skylt við hina upprunalegu Hafrót – meðlimalega séð. Lítið fór fyrir sveitinni næstu árin, hún var þó alltaf starfandi og var mestmegnis á auglýsingasíðum dagblaðanna fyrir jólin en Hafrót lék um árabil á Grand hóteli í tengslum við jólahlaðborð hótelsins. Þá lék sveitin einnig á Síldarævintýrinu á Siglufirði í nokkur skipti sem og á hátíðinni Sjóaranum síkáta sem haldin er í Grindavík, að öðru leyti virðist sem sveitin hafi mest leikið á árshátíðum og minni einkasamkomum.
Hafrót var enn starfandi árið 2017 en hætti þá líklega störfum, sveitin gæti þó allt eins verið starfrækt ennþá þótt lítið fari fyrir henni.














































