
Halldór Hansen
Halldór Hansen er líklega sá Íslendingur sem hefur haft einna mest áhrif á tónlistarheiminn hér á landi án þess þó að vera sjálfur tónlistarmaður, hann var mikill tónlistaráhugamaður og vel að sér í söngmálum, þekkti fólk í bransanum víða um heim og var mörgu ungu og efnilegu tónlistarfólki til ráðgjafar þegar koma að námi erlendis, þá var hann mikill plötusafnari, flutti inn þekkt tónlistarfólk í klassíska geiranum til tónleikahalds hér á landi og sinnti ýmsum tónlistartengdum málefnum sem eins konar áhugamáli en Halldór var alla tíð í fullu starfi sem barnageðlæknir í fremstu röð.
Halldór Jón Hansen fæddist sumarið 1927 í Reykjavík og bjó þar mest alla ævi utan námsáranna. Hann veiktist sem barn af astma en segja má að veikindi hafi sett mikinn svip á ævi hans því hann glímdi við lungnasjúkdóma alla tíð og ekki hjálpaði til að hann reykti tvo og upp í þrjá pakka af sígarettum á dag lengi vel. Veikindi Halldórs á barnsaldri urðu reyndar til þess að hann kynntist klassískri tónlist en hann var látinn hlusta á plötur þegar hann lá rúmfastur um nokkurra ára skeið sem barn, á þeim tíma var klassíkin enn alls ráðandi og óperusöngvarar og óperur voru þar fyrirferðamestar. Hann lærði því að meta þá tónlist allt frá barnsaldri og um leið að skynja fínustu blæbrigði og tilfinningar söngsins, að öðru leyti hafði hann engan tónlistarlegan grunn, las t.d. ekki nótur en lék sjálfur á píanó eftir eyranu.
Halldór var aukinheldur sendur utan í annað loftslag sem var að líkindum of kalt hér heima, fyrst til Danmerkur og síðan til Vínar í Austurríki þar sem hann hóf að sækja óperusýningar – enn á barnsaldri, og þróaði þar með sér frekari tónlistarhlustun og -áhuga. Í veikindum sínum dundaði hann sér við að setja upp óperusýningar og föndraði bæði búninga og leikmyndir, á unglingsárum sínum ól hann með sér draum um að verða leiktjaldamálari en þannig atvikaðist í staðinn að hann nam læknisfræði og síðan barnalækningar m.a. í Bandaríkjunum og varð þekktur barnageðlæknir.
Halldór ferðaðist mikið erlendis vegna starfa sinna og gat því stundað áhugamál sín, óperusýningar, ljóðasöngstónleika og aðrar söngviðburði og á þeim ferðum kynntist hann fjöldanum öllum að tónlistarfólki sem mörgum þótti merkilegt, því sjálfur var Halldór fremur hlédrægur í háttum en hafði einhverja nærveru sem laðaði fólk til hans. Þannig kynntist hann persónulega tónlistarfólki eins og Dalton Baldwin heimsþekktum píanóundirleikara, og söngvurum eins og Gérard Souzay, Glendu Maurice og Elly Ameling sem síðar áttu eftir að koma hingað oft til Íslands fyrir hans tilstilli til tónleikahalds.
Halldór fór smám saman að láta meira að sér kveða í tónlistarmálum Íslendinga og um og eftir 1980 var hann sérstaklega áberandi, hann ritaði töluvert um klassík í Morgunblaðið og Óperublaðið og í seinni tíð ritaði hann oft innganga í bæklinga geislaplatna í sígildri tónlist vegna yfirgripsmikillar þekkingar sinnar á efninu, Halldór kenndi jafnframt um tíma tónlistarsögu í Tónlistarskólanum í Reykjavík og fékk m.a. hingað til lands erlenda söngkennara til námskeiðahalds, þá var hann tónlistarskólunum til listrænnar ráðgjafar m.a. þegar ungir og efnilegir söngnemar hugðust leita erlendist til framhaldsnáms, og greiddi þannig götu fjölmargra síðar þekktra söngvara. Halldór hélt einnig oft sjálfur fræðsluerindi um óperutónlist og aðrar söngmenntir, hann vann töluvert að tónleikahaldi og öðrum tengdum málefnum í samstarfi við Tónlistarfélagið og Tónlistarskólann í Reykjavik og var t.a.m. einn þeirra sem hélt utan um tónlistarhátíðina Sönghátíð ´83 þar sem fjöldi erlenda söngvara heimsótti landið. Árið 2000 voru svo haldin sönghátíð og -námskeið í Salnum í Kópavogi þar sem fjöldi erlenda og íslenskra listamanna heiðruðu hann með því að stíga á stokk.

Halldór Hansen
Halldór var þekktur plötusafnari og þekkt var að þegar hann ferðaðist erlendis (sem var mjög oft eins og fyrr greinir) að þá hafði hann að vana að kaupa vínylplötur (og síðar geislaplötur), hann var hins vegar þannig gerður að hann keypti yfirleitt ferðatösku undir afraksturinn til að koma plötunum heim og kom því iðulega heim til Íslands með einni tösku meira en hann fór með utan – fyrir vikið söfnuðust upp „einnota“ ferðatöskur í kjallara húss hans sem síðan fundust eftir andlát hans.
Sem fyrr segir glímdi Halldór við erfið veikindi oft um ævi sína og sagði hann einhvern tímann í blaðaviðtali að hann hefði legið fjórum sinnum á dánarbeðinu – sem var líklega alveg rétt því hann fékk fjórum sinnum krabbamein. Þannig var hann mikið rúmliggjandi síðustu æviár sín og þegar ljóst var hvert stefndi tók hann þá ákvörðun um að gefa Listaháskóla Íslands tónlistarsafn sitt auk þess sem hann ánafnaði skólanum einnig allar eigur sínar, þ.m.t. fasteign sína á Laufásvegi eftir sinn dag, í því skyni að efla veg listnáms á Íslandi. Þegar Halldór lést sumarið 2003 kom reyndar í ljós að gjöf hans var mun stærri en reiknað hafði verið með, bæði var tónlistarsafnið miklu stærra en menn ætluðu eða yfir tíu þúsund plötur auk bóka og mynda, og einnig fannst í húsi hans umtalsvert fé sem ekki hafði verið reiknað með en Halldór var ógiftur og barnlaus, það má því ætla að nafni hans verði haldið á lofti innan LHÍ um aldur og ævi.
Halldór Jón Hansen var heiðraður á ýmsan hátt í lifanda lífi bæði sem barnalæknir en fyrst og fremst fyrir tónlistartengd störf sín, hann hlaut t.a.m. riddarakross fyrir tónlistarmálin og innan LHÍ var styrktarsjóður í nafni hans stofnaður formlega árið 2004 og hefur verið veitt úr honum árlega, einnig var stofnaður menningarsjóður við Barnaspítala Hringsins í nafni Halldórs. Margar greinar hafa jafnframt verið ritaðar um Halldór og árið 2009 voru haldnir minningartónleikar um hann, svo aðeins fáein dæmi séu nefnd um þá virðingu sem nafn hans nýtur.














































