Halldór Ingi Andrésson [annað] (1954-2021)

Halldór Ingi Andrésson

Halldór Ingi Andrésson lifði og hrærðist í tónlist alla ævi þótt ekki væri hann sjálfur tónlistarmaður, hann kom að íslenskri tónlist sem blaðamaður, plötusali, útgáfustjóri, útvarpsmaður og tónlistarbloggari, í allra stysta máli má segja að hann hafi verið poppfræðingur.

Halldór Ingi fæddist vorið 1954, hann kom upphaflega úr Flóanum en fluttist snemma á Selfoss þar sem hann bjó til sex ára aldurs en bjó eftir það á höfuðborgarsvæðinu, fyrst í Reykjavík en síðan vestur á Seltjarnarnesi þar sem hann var til æviloka. Hann fékk snemma áhuga á tónlist, var farinn að stúdera hana 11-12 ára gamall meðal annars með því að hlusta á Radio Luxembourg og á menntaskólaárum sínum í MR var hann orðinn þekktur tónlistaráhugamaður.

Hann var rétt rúmlega tvítugur þegar hann hóf að skrifa um popptónlist í Þjóðviljanum en þar var dálkur hans nefndur Klásúlur, reyndar var ferill hans endasleppur á því blaði þar sem hann lét ekki alveg að stjórn skv. yfirboðurum sínum og var látinn fara – hafði þá ekki farið nógu fögrum orðum um hljómsveitina Þokkabót. Hann þótti hins vegar það góður í fagi sínu að skömmu síðar var hann farinn að skrifa fyrir Vísi og svo einnig í Vikuna og árið 1979 hóf hann poppskrif fyrir Morgunblaðið þar sem poppsíðurnar gengu undir nafninu Slagbrandur. Á þeim árum ritaði hann einnig greinar um íslenska tónlist fyrir erlend tímarit s.s. Billboard tímaritið.

Haustið 1981 urðu þau tímamót hjá Halldóri Inga að hann hóf störf hjá Fálkanum og gegndi þar stöðu útgáfustjóra og starfaði því að plötuútgáfumálum næstu árin auk kynninga á tónlistarfólki, þar annaðist hann einnig pantanir á plötum erlendis frá og fékk þannig dýrmæta reynslu sem hann nýtti sér þegar hann opnaði sjálfur Plötubúðina við Laugaveg 28 haustið 1983, þar flutti hann sjálfur inn plötur og rak verslunina fram yfir miðjan tíunda áratuginn en tók þá við sem verslunarstjóri hjá JAPIS og síðan Virgin megastore í Kringlunni. Þá starfaði hann um tíma sem dagskrárgerðarmaður bæði á Bylgjunni og síðan á Rás 2 þar sem hann sá um tónlistarþætti.

Halldór Ingi hætti um tíma í tónlistartengdum verkefnum, aflaði sér menntunar til löggildingar fasteignasala og hóf að selja fasteignir, og rak aukinheldur fasteignasölu um tíma. Hann hóf þó aftur að rita um tónlist, hélt úti vinsælu tónlistarbloggi – Plötubúðinni á árunum 2007 til 09 og svo vefsíðunum Poppheimum og Plötudómar.com sem helgaðar voru tónlist, hann var jafnframt mikið notaður af fjölmiðlum sem álitsgjafi í tengslum við tónlistarumfjallanir og vísuðu fjölmiðlar gjarnan til vefsíðna hans. Leið hans lá svo aftur í útvarp þegar hann stjórnaði Plötuskápnum á Rás 2 í félagi við aðra.

Halldór Ingi greindist með krabbamein sem síðan dró hann til dauða sumarið 2021 en hann var þá aðeins 67 ára gamall.