
Halla Soffía Jónasdóttir
Sópran söngkonan Halla Soffía Jónasdóttir kom við bæði í léttari tegund tónlistar sem og kórtónlist og einsöng, en plata hefur komið út með söng hennar og Fríðar Sigurðardóttur.
Halla Soffía Jónasdóttir fæddist á Dalvík sumarið 1943 og sleit þar barnsskónum. Hún mun eitthvað hafa numið tónlist á yngri árum og hóf að syngja þar með kór um tvítugt – og reyndar einnig einsöng með Karlakór Dalvíkur. Þegar hún fluttist á Sauðárkrók árið 1965 ásamt eiginmanni sínum hóf hún að syngja með Hljómsveit Hauks Þorsteinssonar og starfaði með þeirri sveit meðan hún bjó þar, á árunum 1965-70. Á árunum á Króknum söng hún með kirkjukór Sauðárkróks og stundum í dægurlagakeppni Sæluviku Kvenfélags Sauðákróks og tók jafnframt virkan þátt í öðru félagslífi s.s. með leikfélaginu í bænum.
Halla flutti aftur til Dalvíkur 1970 og hóf þá söngnám hjá Sigurði Demetz sem þá bjó á Akureyri, þegar hann flutti suður til Reykjavíkur árið 1979 fóru Halla og eiginmaður hennar um svipað leyti einnig suður en þau höfðu þá misst tvo syni sína af slysförum með stuttu millibili fyrir norðan. Hún hélt áfram að nema söng hjá Sigurði sem þá starfaði við Nýja söngskólann, og lauk burtfararprófi árið 1986.
Þá hóf hún einnig að syngja með Skagfirsku söngsveitinni í Reykjavík árið 1980 og söng með henni í fjölda ára, hún söng margoft einsöng með kórnum en kom einnig fram ein sem einsöngvari bæði á tónleikum og í útvarpssal og oft ásamt Fríði Sigurðardóttur sem hún átti lengi í samstarfi við. Þær stöllur gáfu árið 1994 út plötu sem bar nafnið Ætti ég hörpu, á þeirri plötu nutu þær aðstoðar og undirleiks Kára Gestssonar en þar sungu þær einsöngs- og tvísöngslög úr ýmsum áttum. Platan hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu.
Halla hélt áfram að syngja á tónleikum fram á nýja öld, oft með Fríði og stundum söng hún einsöng með kórum s.s. Breiðfirðingakórnum.














































